Skortir vottun og starfsemi Votlendissjóðs skert

Eitt af verkefnum Votlendissjóðs var við Rauðasand í Vesturbyggð. Samið …
Eitt af verkefnum Votlendissjóðs var við Rauðasand í Vesturbyggð. Samið hefur verið um starfslok við Einar Bárðarson, framkvæmdastjóra sjóðsins.

Stjórn Votlendissjóðs hefur ákveðið að draga úr rekstri sjóðsins þar sem skortur er á jörðum til endurheimtar votlendis, auk þess sem beðið er eftir að alþjóðlegri vottun kolefniseininga ljúki. Árangur síðasta árs var vonbrigði og hefur verið samið um starfslok við framkvæmdastjóra sjóðsins, Einar Bárðarson. Hann mun þó áfram verða stjórn innan handar með útistandandi verkefni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn sjóðsins.

Segir þar að fram að vottun verði látið af sölu kolefniseininga, en að sjóðurinn kalli þó áfram eftir samvinnu við landeigendur sem eru áhugasamir um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda, eflingu fuglalífs og lífs í vötnum og ám.

Jafnframt segir að vinna við að afla sjóðnum alþjóðlegri vottun sé í fullum gangi, en að tímaáætlun geri ráð fyrir að vottunarferlinu ljúki á seinni hluta þessa árs. Standa því vonir til þess að hægt verði að hefja vottaða endurheimt á seinni hluta þessa árs og sölu á virkum einingum á síðari hluta næsta árs.

Síðasta ár vonbrigði

Í fyrra var endurheimt votlendis á forræði sjóðsins aðeins 79 hektarar, en áætlað er að það sé undir 0,1% af því sem talið hefur verið unnt að endurheimta hérlendis.

„Þetta voru stjórninni mikil vonbrigði og því þörf á að taka skref til baka og skoða heildarmyndina. Ýmsir þættir hafa haft neikvæð áhrif á öflun jarða til endurheimtar votlendis, svo sem skortur á fjárhagslegum hvötum til landeigenda, bið eftir formlegri staðfestingu á áhrifum endurheimtar votlendis á losun gróðurhúsalofttegunda frá íslensku votlendi, skortur á vottun og skortur á slagkrafti af hálfu stjórnvalda í málaflokknum. Með vottun vonast Votlendissjóður til þess að rutt verði úr vegi flestum þessara þröskulda,“ segir í tilkynningunni.

Áherslan færst yfir í vottun þriðja aðila

Sjóðurinn hefur frá stofnun árið 2018 verið fjármagnaður með sölu kolefniseininga sem verða til við framkvæmdir. Nú er lögð áhersla á að slíkar einingar skuli vottaðar af þriðja aðila, en þar sem vottunina skortir enn takarmakar það möguleika sjóðsins til að fjármagna verkefni.

„Stjórn Votlendissjóðs þykir miður að þurfa að draga tímabundið saman seglin í starfseminni, þar sem hvert ár sem losun frá framræstu votlendi hefur verið stöðvuð telur í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Stærsti kosturinn við endurheimt votlendis, sem náttúrumiðuð lausn í loftslagsbaráttunni, er að einungis tekur nokkra daga eða vikur frá framkvæmd þar til að losun gróðurhúsalofttegunda hefur minnkað verulega. En á meðan ekki fást jarðir til endurheimtar og möguleikar til fjármögnunar verkefnanna eru skertir, er það mat stjórnarinnar að þetta sé ábyrgasti kosturinn í stöðunni, samhliða því að unnið er að vottun. Stjórn sjóðsins vonast þó eftir áframhaldandi stuðningi samfélagsins við þetta mikilvæga verkefni. Við erum ennþá fullviss um að endurheimt votlendis sé ein besta og skilvirkasta loftslagsaðgerð sem stendur til boða á Íslandi,“ er haft eftir Ingunni Agnesi Kro, stjórnarformanni sjóðsins í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert