Þakka fyrir tvöfalt framlag Íslands

Flóttamenn frá Úkraínu bíða á lestarstöð í borginni Lviv eftir …
Flóttamenn frá Úkraínu bíða á lestarstöð í borginni Lviv eftir lest til Póllands í fyrra. AFP

Á síðasta ári tvöfaldaði Ísland fjárframlag sitt til UNHCR, flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Stofnunin lofar mjög skuldbindingu Íslands til þess að aðstoða og vernda flóttafólk um allan heim, með auknum fjárframlögum Íslands til hennar fyrir árið 2022.

„Með meira en 100 milljónir manna sem eru neyddar frá heimilum sínum um gjörvallan heim vegna stríðs, ofbeldis, ofsókna og mannréttindabrota, er mannúðar- og verndarþörf mikil. Við treystum á stuðning gjafalanda og á Ísland í því sambandi skilið viðurkenningu fyrir að bregðast skjótt við alþjóðlegum aðstæðum með því að auka fjárframlög sín,“ segir Henrik M. Nordentoft, fulltrúi flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin, í tilkynningu.

Tæpar 600 milljónir

Á síðasta ári lagði Ísland sitt stærsta fjárframlag nokkru sinni til starfa flóttamannastofnunar SÞ á heimsvísu, eða alls til 4,2 milljónir bandaríkjadala, sem jafngildir tæpum 600 milljónum króna, sem er 120 prósent aukning frá árinu á undan.

Af framlaginu lagði Ísland til tæpar 1,5 milljónir bandaríkjadala sem svokallað óeyrnamerkt fjármagn, sem er þreföldun frá fyrra ári.

„Slík fjármögnun er lífsnauðsynleg og gerir flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna kleift að bregðast við neyðartilvikum sem þróast hratt, eins og raunin varð til að mynda í Úkraínu á síðasta ári, auk þess að veita vernd og lífsbjargandi aðstoð í langvinnum og oft gleymdum krísum um allan heim,“ segir í tilkynningunni.

„Þökk sé þessum fjármunum getum við aðstoðað flóttafólk, ekki aðeins við að finna öryggi, heldur einnig til að geta endurbyggt líf sitt með því að tryggja aðgang að heilbrigðisþjónustu, menntun og lífsviðurværi. Sem lítið land er alþjóðleg þátttaka Íslands í flóttamannavernd öðrum innblástur,“ segir Nordentoft í tilkynningunni. „Við vonum að Ísland haldi áfram þessu mikilvæga verkefni og beiti sömu sterku skuldbindingu um vernd flóttafólks heima fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert