„Þetta verði tekið til mjög alvarlegrar skoðunar“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er eitthvað sem við eigum að taka mjög alvarlega,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra spurð hvort að mikil notkun einangrunarvistar hér á landi í samanburði við önnur lönd hafi komið henni á óvart.

Í gær kom út ný skýrsla Am­nesty In­ternati­onal: „Wak­ing up to not­hing: Harm­ful and unjustified use of pre-trial solitary con­finement in Ice­land“, þar sem gerðar eru al­var­leg­ar at­huga­semd­ir við fyr­ir­komu­lag og notk­un ein­angr­un­ar­vist­ar í gæslu­v­arðhaldi hér á landi. 

Í henni kem­ur meðal ann­ars fram að á Íslandi sé ein­angr­un­ar­vist beitt óhóf­lega og ít­rekað brotið gegn alþjóðlegu banni gegn pynt­ing­um og ann­arri ómann­legri eða van­v­irðandi meðferð eða refs­ingu. Ein­angr­un­ar­vist sé meðal ann­ars beitt gegn ein­stak­ling­um með fötl­un og börn­um, sem ætti aldrei að líðast.

„Ég vænti þess að dómsmálaráðherra, sem fer með þennan málaflokk, muni fara yfir þessi mál,“ segir Katrín og bætir við að samkvæmt hennar upplýsingum er farin af stað vinna í dómsmálaráðuneytinu.

Hún segist því gera ráð fyrir að málið verði rætt á fundi ríkisstjórnar. 

„Snýst um þessi grundvallarréttindi“

„Ég segi sem ráðherra mannréttindamála að það er mjög mikilvægt að það sé farið yfir svona skýrslu og þetta er eitthvað sem mér finnst að við eigum að taka alvarlega.“ 

Katrín nefnir vinnu að landsáætlun í mannréttindum, eða svokallaða grænbók í mannréttindum. 

„Eitt af því sem við teljum vera lykilviðfangsefni er að gera landsáætlun um mannréttindi og þetta er auðvitað einn af þeim þáttum. Þetta snýst um þessi grundvallarréttindi, oft fólks í mjög viðkvæmri stöðu, eins og bent er á,“ segir hún. 

„Þannig að ég tel fulla ástæðu til þess að þetta verði tekið til mjög alvarlegrar skoðunar og ég veit að sú vinna er hafin af hálfu dómsmálaráðráðuneytisins að fara yfir þetta, en þetta er líka eitthvað sem við munum taka til skoðunar í okkar vinnu í mannréttindamálum,“ segir Katrín að lokum. 

mbl.is