Vill að Katrín deili með sér ráðgjöf sérfræðinganna

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra árið …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra árið 2019. mbl.is/​Hari

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sendi Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra bréf í gær þar sem hún óskar eftir fundi með ráðherra og að Katrín deili með Eflingu „þeirri ráðgjöf sem hún segist hafa fengið frá sérfræðingum um að miðlunartillaga ríkissáttasemjara sé lögleg“.

Bréfið birti Sólveig Anna á Facebook-síðu sinni en hún sendi það á ráðherra í ljósi ummæla sem Katrín lét falla í fjölmiðlum í gær um miðlunartillögu ríkissáttasemjara. 

Sagði Katrín að samkvæmt þeim sérfræðingum sem hún hefur ráðfært sig við standist tillagan skoðun. 

Sólveig segir að þessi ummæli hafi verulegt vægi í samfélaginu og hafi mikil áhrif á afstöðu almennings til deilunnar. 

„Það er hvorki mér né öðru Eflingarfólki kappsmál að standa „í öllum þessum kærumálum“,“ segir í bréfi Sólveigar og bætir við að það þýði ekki að Efling muni ekki svara fyrir sig. 

Í Facebook-færslunni segir Sólveig að forsætisráðherra hafi enn ekki svarað bréfinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert