Vinstribeygjuakreinum við Kleppsmýrarveg fækkað

Umferð gangandi vegfarenda um svæðið hefur aukist með uppbyggingu Vogabyggðar.
Umferð gangandi vegfarenda um svæðið hefur aukist með uppbyggingu Vogabyggðar. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Ein vinstribeygjuakrein verður af Kleppsmýrarvegi við Sæbraut í stað tveggja, miðeyjur á Sæbraut verða lagfærðar og gönguleið sunnan Kleppsmýrarvegar verður breikkuð.

Var þetta samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur í morgun, til þess að bæta umferðaröryggi á gatnamótum Kleppsmýrarvegar og Sæbrautar, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar.

Teikning af tillögunni, sem samþykkt var í dag.
Teikning af tillögunni, sem samþykkt var í dag. Kort/Reykjavíkurborg

Hefur áhrif á umferðina en bætir umferðaröryggi

„Núverandi fyrirkomulag, þar sem tekin er vinstribeygja á tveimur akreinum frá Kleppsmýrarvegi á sama tíma og gangandi vegfarendur fara yfir Sæbraut, er mjög óæskilegt með tilliti til umferðaröryggis. Breytingarnar hafa óhjákvæmilega áhrif á flæði ökutækja frá Kleppsmýrarvegi á annatíma en ávinningur hvað varðar umferðaröryggi er ótvíræður,“ segir í tilkynningu Reykjavíkurborgar. 

Framkvæmdir muni hefjast þegar veður leyfir en fyrr verður farið í aðrar aðgerðir á svæðinu, þar á meðal úrbætur á götulýsingu. Þá verða gangbrautir á öllum framhjáhlaupum með hraðalækkandi aðgerðum, að því er segir í tilkynningu.

Umferð gangandi vegfarenda um gatnamótin aukist

Sú leið sem er farin byggist á greiningarvinnu verkfræðistofunnar Eflu á því hvaða aðgerðir gætu bætt umferðaröryggi skólabarna og annarra hjólandi og gangandi vegfarenda sem allra fyrst. Til viðbótar við eftirfarandi aðgerðir stendur enn til að reisa bráðabirgðagöngubrú yfir Sæbraut.

Unnið hefur verið að tillögum að breytingum á gatnamótunum í samvinnu með Vegagerðinni með það að markmiði að bæta umferðaröryggi gatnamótanna um nokkurt skeið og með uppbyggingu Vogabyggðar hefur umferð gangandi og hjólandi vegfarenda aukist um gatnamótin að mati borgarinnar.

Göngubrú á áætlun á árinu

Enn fremur er unnið að undirbúningi þess að koma fyrir bráðabirgðagöngubrú til að auka öryggi gangandi vegfarenda á leið yfir Sæbraut þar til stokkur verður gerður. Gert er ráð fyrir að sú göngubrú verði til móts við Snekkjuvog og komi til framkvæmda síðar á árinu.

mbl.is