Aftur gular viðvaranir á morgun

Svona líta veðurviðvaranir út klukkan 18 á föstudaginn.
Svona líta veðurviðvaranir út klukkan 18 á föstudaginn. Kort/Veðurstofa Íslands

Ekkert lát er á vonskuveðrinu sem herjar nú á landsmenn en gular veðurviðvaranir taka á ný gildi á hádegi á morgun. Þegar eru í gildi gular viðvaranir á stærstum hluta landsins í dag, en þær ganga svo niður í nótt. 

Veðurstofa Íslands spáir 15 til 23 m/s og talsverðri rigningu. Aukið álag verður á fráveitukerfi og er fólki bent á að huga að niðurföllum og ganga frá lausum munum.

Á Faxaflóa, Suður- og Suðausturlandi er varað við snörpum vindhviðum við fjöll sem geta verið varhugaverðar fyrir vegfarendur.

Á miðhálendinu verður suðaustan og sunnan 20 til 25 m/s. Snjókoma verður og síðar slydda eða rigning og verður ekkert ferðaveður. 

Síðdegis taka gildi veðurviðvaranir fyrir Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra.

mbl.is