Aldarfjórðungur síðan mbl.is var opnaður

mbl.is fór í loftið á þessum degi fyrir 25 árum …
mbl.is fór í loftið á þessum degi fyrir 25 árum síðan, eða 2. febrúar árið 1998.

Í dag eru 25 ár liðin síðan mbl.is hóf göngu sína sem fréttavefur. Vefurinn varð strax meðal mest heimsóttu vefja landsins og mest lesni fréttavefur landsins, líkt og hann er í dag. Á þeim 25 árum sem liðin eru síðan mbl.is hóf göngu sína hafa verið birt­ar þar ríflega 1,2 milljónir frétta, eða sem nemur 134 fréttum að meðaltali á hverjum degi frá upphafi, en til gamans má geta að ef allar þessar fréttir væru prentaðar út myndi það jafnast á við um 3.400 bækur.

Heim­sókn­ir á mbl.is voru sjö þúsund fyrsta sól­ar­hring­inn, en í síðustu viku voru dag­leg­ir inn­lend­ir gest­ir mbl.is að meðaltali ríf­lega 217.000. Um 84% landsmanna koma inn á vefinn í hverri viku og skoðar hver og einn gestur að meðaltali 74 síður á vefnum í hverri viku.

Fyrstu árin ólst mbl.is upp í skjóli syst­ur­miðils­ins Morg­un­blaðsins. Vef­ur­inn var þá kallaður Frétta­vef­ur Morg­un­blaðsins og naut þess trausts og sterku innviða sem byggðir höfðu verið um Morg­un­blaðið.

Í tilefni dagsins geta lesendur hér skoðað hvernig vefurinn leit út aldamótaárið 2000, en í desember það ár var meðal helstu frétta ákvörðun Hæstaréttar Bandaríkjanna í tengslum við nýliðnar forsetakosningar um hvort George Bush væri réttkjörinn forseti landsins. Þá ræddu þingmenn á Íslandi um díoxínmengun í fiskimjöli í Evrópu og kempan Karl Malone hafði verið útnefndur leikmaður mánaðarins í NBA.

Frá upp­hafi starfaði sér­stök frétta­deild á mbl.is og þessi nýi miðill ruddi nýj­ar braut­ir í hinu rót­gróna út­gáfu­fé­lagi. Nú eru blaðið og vef­ur­inn tvær aðskild­ar ein­ing­ar þótt vissu­lega sé áfram gott og náið sam­starf með miðlun­um.

Rit­stjórn mbl.is þakk­ar les­end­um fyr­ir traustið og fagn­ar deg­in­um með því að halda áfram að bjóða upp á nýj­ustu frétt­ir og annað áhuga­vert efni.

Afmælisvefur mbl.is

mbl.is