Anna hirðir fyrsta sætið af Guðrúnu

Þó svo að Anna og Jón séu algengustu nöfnin þá …
Þó svo að Anna og Jón séu algengustu nöfnin þá komust þau ekki á blað þegar horft er til vinsælustu nafna nýfæddra barna. mbl.is/Árni Sæberg

Tímamót urðu í ársbyrjun 2023 þegar að kvenmannsnafnið Anna hirti fyrsta sætið sem algengasta eiginnafn kvenna á Íslandi. Er þetta í fyrsta sinn sem Guðrúnu er steypt af stóli en samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands báru 310 fleiri nafnið Anna þann 1. janúar, eða alls 4.782 einstaklingar. 4.472 báru þá nafnið Guðrún og 3.383 nafnið Kristín.

Karlamegin trónir Jón enn á toppnum sem algengasta nafnið en alls báru 5.052 einstaklingar nafnið þann 1. janúar. Þar á eftir komu Sigurður og Guðmundur.

Þetta kemur fram í tilkynningu Hagstofunnar.


Flestir landsmenn bera fleiri en eitt nafn en í ársbyrjun 2023 voru þrjár algengustu samsetningarnar hjá körlum Jón Þór, Gunnar Þór og Arnar Freyr. Þetta voru jafnframt algengustu tvínefnin fyrir fimm árum með þeirri undantekningu að Arnar Freyr kom upp í þriðja sætið í stað Jóns Inga.

Kvennamegin voru þrjár algengustu samsetningarnar Anna María, Anna Kristín og Anna Margrét. Þetta voru líka þrjú algengustu tvínefnin árið 2018.

Anna og Jón ekki vinsæl í dag

Þó svo að Anna og Jón séu algengustu nöfnin á Íslandi þá er ekki þar með sagt að þetta séu vinsælustu nöfnin nú en þau komast ekki á blað þegar tölfræði yfir algengustu nöfn barna sem fæddust árið 2021 eru skoðuð. Vinsælasta eiginnafn drengja sem fæddust á því ári er Aron og í öðru og þriðja sæti eru Jökull og Alexander. Hjá stúlkunum var Emilía vinsælasta eiginnafnið og þar á eftir Embla og Sara.

Þór var langvinsælasta annað eiginnafnið hjá drengjum en þar á eftir Freyr og Máni. Rós var vinsælasta annað eiginnafnið hjá stúlkum. Á eftir því komu stúlkunöfnin Björk og Ósk sem vinsælasta annað eiginnafn nýfæddra stúlkna.

Sumarbörnin fleiri

Þá er algengara að börn fæðist að sumri og á haustin en yfir vetrarmánuðina, frá október og fram í mars. Alls eru 51,5% allra afmælisdaga á tímabilinu frá apríl til september.

Í upphafi árs 2023 gátu flestir átt von á því að halda upp á afmælisdaginn 1. janúar, alls 1.246 einstaklingar. Fæstir áttu afmæli á hlaupársdag, 29. febrúar, eða 234 einstaklingar. Næst kemur jóladagur (780) og aðfangadagur (861).

mbl.is