Brugðið yfir áætlunum borgarinnar

Árni Stefánsson segir umferð nú þegar vera þunga á álagstímum …
Árni Stefánsson segir umferð nú þegar vera þunga á álagstímum frá Kleppsmýrarvegi og upp á Sæbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Okkar fyrstu viðbrögð eru að okkur er verulega brugðið,“ segir Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, um þær fyrirætlanir Reykjavíkurborgar að fækka beygjuakreinum úr tveimur í eina frá Kleppsmýrarvegi á Sæbraut.

Þetta var samþykkt á fundi um­hverf­is- og skipu­lags­ráðs Reykja­vík­ur í gær, til þess að bæta umferðaröryggi á gatnamótum Kleppsmýrarvegar og Sæbrautar.

„Umferð er nú þegar þung á álagstímum út úr hverfinu. Við erum eiginlega alveg forviða á þessu. Stundum eru bílaraðir hérna allt niður í Skútuvog,“ segir Árni í samtali við mbl.is.

Húsasmiðjan er með mikla starfsemi fyrir neðan Sæbrautina nálægt Kleppsmýrarvegi og á hagsmuna að gæta við að umferð spillist ekki á svæðinu.

Funduðu með Vegagerðinni um stokk

Árni segir að forráðamenn Húsasmiðjunnar hafi fundað með Vegagerðinni í fyrra varðandi fyrirhugaðan stokk á Sæbrautinni. Ekkert hafi verið minnst á fækkun akreina.

„Maður áttar sig ekki alveg á því hvernig Vegagerðin og Reykjavíkurborg sjá fyrir sér umferðarflæðið leysast, ég held það versni við þetta,“ segir Árni.

„Við vorum búin að óska eftir umferðarmælingum þarna síðasta haust en við höfum alla vega ekkert heyrt af því að þær hafi verið gerðar.“

Auki ekki umferðaröryggi að stífla götuna

Í tilkynningu Reykjavíkurborgar í gær kom fram að breyt­ing­arn­ar muni óhjá­kvæmi­lega hafa áhrif á flæði öku­tækja frá Klepps­mýr­ar­vegi á anna­tíma en ávinn­ing­ur hvað varðar um­ferðarör­yggi sé ótví­ræður.

„Ég er eiginlega steinhissa. Maður hefði nú haldið að það yrði leyst með brúm eða öðru slíku í staðin fyrir að vera að beina fólki yfir svona fjölfarin gatnamót á stofnbrautum,“ segir Árni.

„Ég held það auki alls ekki umferðaröryggi að stífla götuna fyrir neðan gatnamót.“

mbl.is