Eitt skilti og tekjulindin fengið forgang

Jóhannes ræddi við mbl.is um málefni strætó við Leifsstöð á …
Jóhannes ræddi við mbl.is um málefni strætó við Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli.

Jó­hann­es Rún­ars­son, fram­kvæmda­stjóri Strætó bs., segir Isavia ekki vilja auglýsa vel í Leifsstöð þá strætóleið sem er í boði frá Keflavíkurflugvelli. Tekjustreymið af flugrútunum, en rekstur þeirra er boðinn út, hafi fengið forgang.

„Þeir eru auðvitað með sína tekjulind þarna í gegnum þessar flugrútur og það hefur fengið þeirra forgang,“ segir Jó­hann­es í samtali við mbl.is.

Leið landsbyggðarstrætó númer 55 stoppar nálægt flugvellinum. Vegagerðin rekur landsbyggðarstrætó með aðstoð Strætó bs.

Árið 2018 fékkst leyfi fyrir því að auglýsa strætóleiðina á flugvellinum. Í kjölfarið var einu skilti komið upp þar sem leiðin er auglýst.

Strætisvagnar stöðva handan bílastæðaflæmisins við Leifsstöð.
Strætisvagnar stöðva handan bílastæðaflæmisins við Leifsstöð. Ljósmynd/Isavia

Skoða þyrfti tíðni og þjónustutíma

mbl.is greindi í gær frá því að Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði innt innviðaráðherra eftir svörum á því hvers vegna almenningssamgöngur að Keflavíkurflugvelli væru ekki betri. Nú annast tvö fyrirtæki akst­ur til og frá flug­vell­in­um, en akst­ur­inn er boðinn út.

Spurði Hildur meðal annars hvort eitthvað stæði í vegi fyrir því að Strætó geti auglýst þjónustu sína innan flugstöðvarinnar.

Eins og áður sagði fer leið 55 nálægt flugvellinum. Spurður hvernig hægt væri að fá fleiri til að nýta leiðina segir Jóhannes:

„Ég held að það þyrfti bæði að bæta merkingarnar og helst að hafa þetta alveg við flugvöllinn. Svo þarf auðvitað að skoða tíðnina og þjónustutímann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert