Ekki áhyggjur af ruðningsáhrifum virkjanaframkvæmda

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir ríkisstjórnina ekki hafa áhyggjur af efnahagslegum ruðningsáhrifum vegna fyrirhugaðra framkvæmda Landsvirkjunar. 

Landsvirkjun gerir ráð fyr­ir útboðum upp á samtals 46 millj­arða á þessu ári samanborið við 700 millj­ón­a útboð á því síðasta. Þá áætlar Landsvirkjun fjárfestingu upp á rúma sjö milljarða í ár samanborið við þriggja milljarða fjárfestingu á nýliðnu ári.

Þörf fyrir talsverða orkuöflun á næsta áratug

Bjarni segir að nýja orku þurfi fyrir orkuskiptin.

„Í ljósi þess að það verður þörf fyrir talsverða orkuöflun á næsta áratug, til að mynda í tengslum við markmið okkar um að draga úr losun og aðgerðaráætlun í loftlagsmálum, þá mun þurfa nýja orku fyrir orkuskiptin.“

Einhverjir kunna að velta fyrir sér hvort slíkar framkvæmdir verði ekki þensluhvetjandi og mörgum þykir víst nóg um í tæplega 10% verðbólgu á ársgrundvelli.

Bjarni segir að það hafi verið rætt innan ríkisstjórnar hvort hægt sé að leggja mat á efnahagsleg umsvif í tengslum við þá mögulegu orkuöflun sem stendur fyrir dyrum.

Ekki áhyggj­ur af efn­hags­leg­um ruðnings­áhrif­um

„Það hefur annars vegar verið ótrúlega lítið fjárfest í nýjum virkjanaframkvæmdum undanfarin sex til átta ár og hins vegar, að þó ýmislegt sé í pípunum, þá er lítið að fara að gerast á þessu ári og næsta í þeim efnum.“

Bjarni segir ríkisstjórnina ekki hafa áhyggjur af efnahagslegum ruðningsáhrifum.

„Möguleg áhrif eru metin um hálft til eitt prósent af Landsframleiðslu eftir nokkur ár,“ segir Bjarni.

Skerðingar geta valdið efnahagslegum skaða

Landsvirkjun hefur greint frá fjórum verkefnum sem öll eru í leyfisveitingarferli; Hvammsvirkjun í neðri Þjórsá, vindorkuver í Búrfellslundi og stækkun á bæði Þeistareykja- og á Sigölduvirkjun.

„Aðal áhyggjuefni okkar á þessum tímapunkti er hættan á mögulegum skerðingum í kerfinu sem gæti valdið efnahagslegum skaða og áhyggjur af óvissunni um umfang orkuöflunar á komandi árum,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert