Höfum haldið úti þessari starfsemi í 70 ár

Björn Bjarnason sér ekki hvers vegna rekstur flugvélar fyrir Landhelgisgæsluna …
Björn Bjarnason sér ekki hvers vegna rekstur flugvélar fyrir Landhelgisgæsluna ætti allt í einu að vera þjóðinni ofvaxinn núna. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég tel bara að það þurfi að fara mjög vel yfir það ef menn ætla að fara að selja þessa vél,“ segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is um fyrirhugaða sölu TF-SIF, flugvélar Landhelgisgæslunnar, en rekstri hennar verður hætt á árinu eftir því sem dómsmálaráðuneytið hefur tilkynnt Landhelgisgæslunni bréflega.

Ritar Björn pistil á heimasíðu sína þar sem hann fer yfir flugvélakost Gæslunnar, að þyrlum þó undanskildum, frá því hún eignaðist sína fyrstu flugvél 10. desember 1955 sem var Catalina-flugbátur keyptur af Varnarliðinu. Douglas DC-4 Skymaster-vél leysti flugbátinn af hólmi árið 1962 og Fokker F-27 200 tók við af þeirri vél áratug síðar, þá önnur sömu gerðar árið 1977 sem var í þjónustu þar til núverandi Dash 8 Q-300-vél kom til landsins árið 2009.

„Frá því að þáttaskilin urðu með komu TF-SIF hafa miklar breytingar orðið í öllu sem varðar eftirlit á hafinu og umsvif á hafsvæðum sem árið 2009 voru álitin friðsamleg en hafa síðan tekið á sig aðra mynd,“ skrifar Björn í pistli sínum, en við mbl.is segir hann:

„Annaðhvort eru menn að halda úti svona starfsemi eða ekki og ef eldsneytisverð og annar kostnaður hækkar verða menn að taka tillit til þess ef það er verið að fjármagna svona starfsemi.“

Dómsmálaráðuneytið hefur tilkynnt Landhelgisgæslunni að rekstri flugvélarinnar verði hætt á …
Dómsmálaráðuneytið hefur tilkynnt Landhelgisgæslunni að rekstri flugvélarinnar verði hætt á árinu og rætt er um sölu hennar þar að auki. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Ekki skynsamlegasti tíminn

Segir Björn rekstur flugvélar hafa verið lið í störfum Landhelgisgæslunnar allar götur síðan 1955 „og ég sé enga ástæðu til þess að eitthvað hafi gerst sem gjörbreytir því allt í einu. Nú höfum við haldið úti þessari starfsemi í sjötíu ár og ég átta mig ekki á því hvers vegna það er allt í einu núna orðið okkur ofvaxið,“ heldur hann áfram.

Ekki síst beri að líta til stöðunnar í öryggismálum í Evrópu almennt þar sem breytt heimsmynd blasi við. „Ég held að þetta sé nú ekki skynsamlegasti tíminn til að fara að gjörbreyta um stefnu varðandi svona öryggisþætti eins og flugvélina,“ segir Björn að lokum, en í pistli sínum skrifar hann að rannsóknir og ígrunduð rök þurfi þegar herfræðileg málefni séu annars vegar og spurningar um hvernig nýta beri borgaraleg öryggistæki þjóðarinnar sem best.

Vísar Björn að lokum í skrifum sínum í orð Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði, í fréttum í dag þar sem hann kvaðst sjaldan hafa orðið eins hissa og þegar hann sá fréttina af væntanlegri sölu TF-SIF.

Klykkir Björn út með því í pistlinum að prófessorinn mæli þar fyrir munn þess er þar skrifar „og líklega alls þorra þjóðarinnar“.

Pistill Björns

mbl.is