Kaldasti janúar aldarinnar

Samsett mynd

Nýliðinn janúar er kaldasti janúarmánuður aldarinnar á landsvísu, en síðast var kaldara í janúar árið 1995. Þetta kemur fram á Hungurdiskum, bloggi Trausta Jónssonar veðurfræðings.

Kulda var nokkuð misskipt eftir landssvæðum. Mánuðurinn var sá kaldasti á öldinni  á Suðurlandi, við Faxaflóa, Breiðafjörð, á Ströndum og Norðurlandi vestra, en raðast nærri meðalmánuði á Austurlandi að Glettingi þar sem hann er í 15. hlýjasta sæti.

Trausti segir að þrátt fyrir þetta sé kuldinn ekki nærri jafn afbrigðilegur og hann var í desember. Hiti í janúar var 0,7 stigum undir meðallagi áranna 1931-2010, en í desember var hann 3,6 stigum undir meðallagi.

Þá segir Trausti að þó janúar hafi verið sá kaldasti á þessari öld, hefði hann fyrir aðeins þrettán árum þótt í meðallagi borinn saman við meðalhitastig síðustu fimmtíu ára á undan. Það sé því ekki fyrr en hann lendir í samanburði við hlýindi aldarinnar að hann teljist kaldur. Fyrir hundrað árum hefði hann líka þótt í meðallagi, og þá ekki vantað mikið upp á að hann teldist hlýr. 

mbl.is