Mikill misskilningur að ríkissjóður sé sökudólgurinn

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, oddviti Viðreisnar, tókust …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, oddviti Viðreisnar, tókust á um ástæður þess að verðbólgudraugurinn væri að gera landsmönnum lífið leitt. Samsett mynd/mbl.is

„Ef Seðlabankinn hefur ekki áhyggjur af launahækkunum á Íslandi upp á 12,4% á síðasta ári þá er mér illa brugðið,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi dag þar sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði Bjarna út í viðbrögð stjórnvalda við hárri verðbólgu.

„Hvað ætlar ráðherra og ríkisstjórn að gera til að vinna gegn verðbólgunni, til að slá á útgjaldaþenslu ríkissjóðs, til þess að vera í liði með seðlabankastjóra en ekki vinna gegn markmiðum hans um að hafa verðbólguna lága,“ spurði Þorgerður.

Verðbólgan mikið áhyggjuefni

Bjarni sagði að áhrif gjaldskrárhækkana núna um áramótin hefðu verið fyrirséð. Þau væru mælanleg og hefðu legið fyrir þinginu. Þau væru á bilinu 0,4–0,5% af verðbólgunni sem væri upp á 9,9%.

„Það sem við vitum um stöðuna í dag er að skattar lækkuðu um 6 milljarða um áramótin vegna hækkunar á persónuafslætti og hækkunar á þrepamörkum í tekjuskatti. Því er spáð að hinn almenni vinnumaður muni hafa u.þ.b. 50.000 kr. meira á milli handanna á mánuði á þessu ári vegna launahækkana og skattalækkana um áramótin — 50.000 kr. meira á mánuði, að kaupmáttur haldi áfram að vaxa. En verðbólgan er áhyggjuefni og ég tek undir með háttvirtum þingmanni um það. Það er hins vegar mikill misskilningur að meginsökudólgurinn í því efni sé ríkissjóður, mikill misskilningur,“ sagði Bjarni.

Ríkisstjórnin beri ábyrgð

Þorgerður sagði að verðbólga væri ekki launþegahreyfingunni að kenna og ekki almenningi að kenna. „Hún er ríkisstjórninni að kenna sem hefur ekki hemil á ríkisútgjöldum. Hennar er ábyrgðin. Í guðanna bænum farið að horfast í augu við eigin ábyrgð á eigin gjörðum einhvern tímann.“

Góður gangur og sterk staða

Bjarni sagði að ríkisstjórnin legði á það aðaláherslu að styðja við og bæta lífskjör þjóðarinnar.

„Það hefur gengið afskaplega vel, það hefur gengið betur heldur en annars staðar. Við sjáum það á öllum hagtölum að staða heimilanna er sterk. Eiginfjárstaða hefur batnað mikið. Kaupmáttur heldur áfram að vaxa, meira að segja í þessari verðbólgu. Ef Seðlabankinn hefur ekki áhyggjur af launahækkunum á Íslandi upp á 12,4% á síðasta ári þá er mér illa brugðið. Ef menn halda að 4% launahækkun í desembermánuði einum árið 2022 sé minna áhyggjuefni heldur en það að við fullfjármögnuðum heilbrigðiskerfið í ljósi stöðunnar, við aðra umræða fjárlaga, upp á um 17 milljarða, þá held ég að menn séu á miklum villigötum,“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert