Þjóðhagslegur ábati bættra samgangna gríðarlegur

Þorsteinn R. Hermannsson, for­stöðumaður þró­un­ar hjá Betri sam­göng­um.
Þorsteinn R. Hermannsson, for­stöðumaður þró­un­ar hjá Betri sam­göng­um. mbl.is/Hari

Bílum á höfuðborgarsvæðinu fjölgar um fimmtíu í hverri viku að meðaltali. Þjóðhagslegur ábati bættra almenningssamgangna getur hljóðað upp á marga milljarða ef vel tekst til. 

Þetta kom fram í máli Þorsteins Hermannssonar, for­stöðumanns þró­un­ar hjá Betri sam­göngum, á málþingi Verkfræðingafélags Íslands í dag.

Samgöngur á höfuðborgarsvæðinu eru vaxandi viðfangsefni. Íbúum fjölgar um að meðaltali níutíu á viku og fjölgar bílum samhliða um fimmtíu á viku, eins og áður sagði.

Þorsteinn telur vera til mikils að vinna, þegar kemur að því að fjölga þeim sem nýta almenningssamgöngur.

„Ef hlutfall þeirra sem nýta almenningssamgöngur eykst um 12-13% verður þjóðhagslegur ábati 95 til 115 milljarðar króna. Ef við náum enn betri árangri og hlutfallið eykst um 16-20% verður þjóðhagslegur ábati 175 til 195 milljarðar króna, en þetta er reiknað samkvæmt dönsku hagfræðilíkani,“ segir Þorsteinn.

Stöðugur vöxtur í notkun almenningssamgangna

Í samtali við mbl.is segir hann ljóst að bíllinn verði enn vinsælasti ferðamátinn árið 2030 miðað við það sem er í kortunum. Spurður hvort það sé raunhæft að fólk nýti almenningssamgöngur hér á landi, meðal annars vegna vegalengda á milli stoppistöðva og veðurfars, segir hann svo vera.

„Það er til mikils að vinna með því að bæta almenningssamgöngur hérlendis og er veðurfarið ein af skorðunum en það þýðir ekki að við getum ekki breyst,“ segir Þorsteinn.

„Við höfum séð stöðugan vöxt í notkun almenningssamgangna og þeirra sem fara á milli staða á hjóli. Miðað við það sem við sjáum í kortunum verður bíllinn samt sem áður áfram vinsælasti ferðamátinn.“

Mikill ytri kostnaður af bílaumferð

Félag íslenska bifreiðaeigenda hefur gagnrýnt aukna gjaldtöku af ökutækjum. Þorsteinn telur gjaldtökuna þó ekki vera næga, vegna þess ytri kostnaðar sem fylgir bílaumferð. Hann bendir á að ytri kostnaður umferðar sé hærri í borgum en dreifbýli og að hann sé margfalt hærri á annatímum en utan annatíma. 

Um 90% af ytri kostnaði bílaumferðar í Evrópu er vegna slysa (37%), umferðartafa (35%), loftslagsáhrifa (10%) og loft- og hljóðmengunar (10%),“ segir Þorsteinn og bætir við: 

„Við verðum að horfa öðruvísi á höfuðborgarsvæðið en aðra hluta landsins. Ég tel skattlagningu utan borga nægjanlega en innan borga tel ég hana þurfa að vera meiri.“

mbl.is