„Vissi það einhver?“

Þingmenn allra stjórnarandstöðuflokka gerðu athugasemdir við málið á Alþingi í …
Þingmenn allra stjórnarandstöðuflokka gerðu athugasemdir við málið á Alþingi í dag. Samsett mynd/mbl.is

Þingmenn stjórnandstöðunnar lýstu yfir mikilli óánægju með fyrirhugaða sölu á flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, í hagræðingarskyni. Þingmenn kröfðust þess að málið yrði rætt á Alþingi. 

Landhelgisgæslan greindi frá því í tilkynningu í gær, að rekstri vélarinnar yrði hætt á ár­inu vegna hagræðing­ar. Í bréfi sem dóms­málaráðuneytið sendi Land­helg­is­gæsl­unni fyrr í vik­unni var til­kynnt um þessa ákvörðun og lagt fyr­ir Land­helg­is­gæsl­una að und­ir­búa sölu­ferli vél­ar­inn­ar.

Georg Kr. Lárus­son, for­stjóri Land­helg­is­gæsl­unn­ar, sagði af þessu tilefni, að í ákvörðun­inni fælist  mik­il aft­ur­för í viðbragðs og eft­ir­lits­getu þjóðar­inn­ar. Það væru „sár von­brigði að neyðast til að hætta rekstri eft­ir­lits­flug­vél­ar­inn­ar en hún er sér­út­bú­in eft­ir­lits-, björg­un­ar- og sjúkra­flug­vél og mik­il­væg ein­ing í al­manna­varna­keðju lands­ins.“

Þjóðaröryggismál

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, sagði í umræðum um fundarstjórn forseta á Alþingi í dag, að um þetta mál hefði hvorki farið fram í fundarsal Alþingis né í utanríkisrmálaefnd.

„Hér er um þjóðaröryggismál að ræða á þeim sögulegu tímum sem við nú lifum,“ sagði Þorbjörg. Það væri með ólíkindum að mál af þessum toga verðskuldaði ekki umræðu á Alþingi. 

Ekkert talað um söluna í fjárlögum

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, gagnrýndi það að á að þingið væri nýbúið að samþykkja fjárlög fyrir en þar hefði aftur á móti ekkert verið að finna um svona fyrirætlanir stjórnvalda.

„Vissi það einhver þingmaður hérna inni þegar hann var að greiða atkvæði með þessum fjárlögum að það myndi hafa þær afleiðingar,“ spurði Björn. 

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að það væri óboðlegt að ríkisfjármálastefna ríkisstjórnarinnar leiddi til þess að grunninnviðir og nauðsynleg öryggistæki væru seld til þess að hægt væri að halda úti öðrum rekstri.

„Við erum að tala um einu flugvélina sem Landhelgisgæslan á. Flugvél sem var keypt eftir fjögurra ára skoðun,“ sagði hún. 

Með ólíkindablæ

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, tók í sama streng þegar hann sagði að málið væri allt með ólíkindablæ. Þarna væri verið að svipta þingið réttinum til að ræða málið efnislega sem og aðkomu þingsins að mikilvægum ákvörðunartökum. 

„Rökstuðningurinn fyrir því að gera þetta hjá hæstvirtum dómsmálaráðherra er sá að vélin hvort eð er alltaf suður í höfum. Af hverju er vélin svona oft suður í höfum? Það er vegna þess að embættið eða stofnunin er fjársvelt,“ sagði Sigmar og gagnrýndi það að engin efnisleg svör lægju fyrir varðandi það hvað ætti að taka við. 

mbl.is

Bloggað um fréttina