Birgir bauð ekki sendiherra Rússlands

Gerard Pokruszyński sendiherra Póllands með Birgi Ármannssyni forseta Alþingis í …
Gerard Pokruszyński sendiherra Póllands með Birgi Ármannssyni forseta Alþingis í sendiherraboðinu í gær. Ljósmynd/Alþingi

„Þingið bauð þeim erlendu sendimönnum sem við höfum verið í samskiptum við á undanförnum misserum til síðdegisboðs í gær,“ segir Birgir Ármannsson forseti Alþingis.

Í tilkynningu frá þinginu í tísti í gærkvöldi sagði að Birgir hefði boðið erlendum sendiherrum, með aðsetur í Reykjavík, til árlegrar móttöku í gær.

Í samtali við mbl.is segir hann þessi sendiherraboð byggjast á ákveðinni hefð, en sambærilegt sendiherraboð hefur ekki verið haldið frá því 2019 vegna kórónuveirufaraldursins.

„En á árum áður var þetta árviss viðburður, og stundum vorum við með síðdegismóttöku og stundum var boðið í kvöldmat.“

Sendiherrar sem þingið sé í mestum samskiptum við

Spurður hvort rússneska sendiherranum hafi verið boðið í veisluna, segir Birgir að hann hafi ekki verið í veislunni í gær. Hann leggur áherslu á að þeir sendiherrar sem þingið er í mestum samskiptum við hafi verið í veislunni.

„Pólski sendiherrann Gerard Pokruszyński, er sá af sendiherrunum sem hér hefur verið lengst í starfi og hann þakkaði fyrir boðið fyrir hönd sendiherranna í gær.“

mbl.is