Breki hafði betur gegn smálánarisa

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Sigurður Bogi

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, og Neytendasamtökin höfðu betur gegn smálánafyrirtækinu eCommerce í Landsrétti í dag.

Ummæli hans um okurlánastarfsemi voru talin réttlætanlegur gildisdómur og þau ekki dæmd dauð og ómerk, og eCommerce því dæmt til greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.

Málið var höfðað vegna ummæla sem Breki setti fram í tölvupósti til tveggja fyrirtækja sem veittu eCommerce greiðsluþjónustu. Sagði hann þar að smálán sem eCommerce veitti hefðu verið úrskurðuð ólögleg á Íslandi og að færslurnar af kreditkortunum væru ólöglegar.

Ekki lögfræðilega nákvæmt en í góðri trú

Segir í dómi Landsréttar:

„Þótt ummæli Breka hafi ekki verið lögfræðilega nákvæm voru þau ekki talin úr lausu lofti gripin og lagt til grundvallar að hann hefði í ljósi þeirra upplýsinga sem fyrir lágu, viðhaft þau í góðri trú um réttmæti þeirra og verið heimnilt að halda þeim fram, gagnvart þeim þriðju aðilum sem hann taldi geta rétt hlut skjólstæðinga sinna.“

Í dómi Landsréttar var meðal annars rakið að Breki og Neytendasamtökin nytu stjórnarskrárvarins tjáningarfrelsis, sem almennt yrði að telja rúmt í ljósi hlutverks þeirra, og í málinu vægju þau réttindi ekki til jafns við gagnstæðan stjórnarskrárbundinn rétt eCommerce til æruverndar.

Dómur Landsréttar

mbl.is