Deildu um hugtökin „ráðgast“ og „samráð“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar í héraðsdómi í dag. Flóki …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar í héraðsdómi í dag. Flóki Ásgeirsson lögmaður í baksýn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Munn­leg­ur mál­flutn­ing­ur í inn­setn­ing­ar­máli rík­is­sátta­semj­ara gegn Efl­ingu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Deilt var um skilgreiningu hugtaka og heimildir ríkissáttasemjara til að krefja stéttarfélagið um kjörskrá sína.

Rík­is­sátta­semj­ari leit­aði at­beina héraðsdóms til að fá af­henta kjör­skrá Efl­ing­ar vegna atkvæðagreiðslu um miðlunartillöguna, sem hann lagði fram í síðustu viku.

Andri Árnason, lögmaður ríkissáttasemjara, í héraðsdómi í dag.
Andri Árnason, lögmaður ríkissáttasemjara, í héraðsdómi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Málatilbúnaður sem byggir á misskilningi

Andri Árnason, lögmaður ríkissáttasemjara í málinu, ræddi meðal annars mismunandi skilgreiningu á sögninni að ráðgast og hugtakinu samráð en Efling vill meina að ríkissáttasemjari hafi ekki haft samráð við framlagningu miðlunartillögunar.

Hélt Andri því fram að málatilbúnaður Eflingar byggði á misskilningi og sagði ríkissáttasemjara hafa ráðgast við deiluaðila með því að funda með þeim í sitt hvoru lagi fyrir framlagningu tillögunnar.

Andri benti á færslu Sólveigar Önnu á samskiptamiðli því til stuðnings, þar sem Sólveig ræddi efni fundarins og það að efni miðlunartillögunnar hefði verið rætt í eina klukkustund.

Þá kvaðst Andri undrast það að Efling neitaði að afhenda kjörskrá sína Advania enda hefði félagið sjálft nýtt þjónustu fyrirtækisins við framkvæmd kosninga á eigin vegum.

Engin lögformleg beiðni borist Eflingu

Lögmaður Eflingar, Flóki Ásgeirsson, tók þá við. 

Kvaðst hann hyggja að ein klukkustund hefði liðið af málflutningi lögmanns ríkissáttasemjara, áður en hann hefði svo vikið að álitamálinu sem var til umræðu. 

Flóki sagði að ríkissáttasemjari hefði í raun aldrei sent Eflingu lögformlega beiðni um afhendingu kjörskrárinnar og því væri vandséð að hægt væri að reka mál gegn Eflingu um að beinni aðför skuli beitt svo kjörskrá skuli afhent.

Hann gerði að umtalsefni að meirihluti atkvæða réði ekki úrslitum kosninga um miðlunartillögu ríkissáttasemjara heldur þurfi atkvæði fjórðungs félagsmanna til að fella miðlunartillöguna.

Flóki Ásgeirsson lögmaður í héraðsdómi í dag.
Flóki Ásgeirsson lögmaður í héraðsdómi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ófellanleg miðlunartillaga

Hann sagði það ótrúlegt í ljósi þess að aldrei hefði svo hátt hlutfall félagsmanna Eflingar tekið þátt í atkvæðagreiðslu. Þannig sagði hann að jafnvel þó öll greidd atkvæði féllu á móti tillögunni þá myndi hún samt standa óhögguð. Það sagði hann ansi fjarstæðukennt.

Flóki sagði ríkissáttasemjara ekki eiga neinn umráðarétt yfir kjörskrá Eflingar sem inniheldur nöfn og kennitölur um 27 þúsund félagsmanna.

Hann sagði það ekki hlutverk ríkissáttasemjara að framkvæma kosningu um miðlunartillögu sína heldur hlutverk Eflingar að láta atvæðagreiðslu fara fram um slíka tillögu meðal sinna félagsmanna.

Getur ekki tekið sér réttindi sem hann skortir

Þá sagði Flóki að ríkissáttasemjari gæti ekki tekið sér réttindi sem hann telji að séu heppileg fyrir sig, hann þurfi að snúa sér að Alþingi eða síns ráðherra ef hann telur sig skorta heimildir í lögum.

Jafnframt sagði Flóki að þó hlutverk ríkissáttasemjara væri að framkvæma kosningu um miðlunartillögu, en löggjafinn ekki tryggt aðgangsréttinn að kjörskránum, myndi framkvæmd kosninga ekki fela í sér sjálfstæða lagaheimild til að krefja stéttarfélag um skrá yfir kennitölur um það bil 27 þúsund manns.

Þá sagði hann að skilyrði persónuverndarlaga um fullnægjandi heimild til vinnslu persónuupplýsinga væru ekki uppfyllt.

mbl.is