Egill og Þórhildur hætta hjá Forlaginu

Egill Örn Jóhannsson og Þórhildur Garðarsdóttir hafa sagt störfum sínum …
Egill Örn Jóhannsson og Þórhildur Garðarsdóttir hafa sagt störfum sínum lausum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Egill Örn Jóhannsson framkvæmdastjóri Forlagsins og Þórhildur Garðarsdóttir fjármálastjóri hafa sagt starfi sínu lausu. Tilkynnt var um uppsögn þeirra á starfsmannafundi hjá Forlaginu í morgun og í kjölfarið voru rithöfundar innan vébanda Forlagsins upplýstir um þessi tíðindi í tölvupósti.
Í pósti Hólmfríðar Úu Matthíasdóttur útgáfustjóra til höfunda segir að þessar breytingar séu gerðar í mikilli sátt.

„Bæði hafa þau unnið mikið og gott uppbyggingarstarf fyrir félagið og hafa átt ríkan þátt í að móta Forlagið, langstærstu og öflugustu bókaútgáfu landsins, en nú finnst þeim tími kominn til að takast á við nýjar áskoranir og verkefni,“ skrifar Úa.

„Að ósk Halldórs Guðmundssonar, stjórnarformanns Forlagsins, mun Árni Einarsson stíga inn tímabundið sem framkvæmdarstjóri á meðan við finnum réttu manneskjurnar til starfa en bæði Egill og Þórhildur verða hér áfram okkur til aðstoðar og til að tryggja að breytingarnar hafi ekki í för með sér neitt rask fyrir starfsfólk eða höfunda Forlagsins. En öllum breytingum fylgja líka ný og spennandi tækifæri,“ segir hún ennfremur.

Uppfært kl. 10.21:

Í fréttatilkynningu frá Forlaginu er haft eftir Halldóri Guðmundssyni stjórnarformanni að hann  kunni þeim Þórhildi og Agli miklar þakkir fyrir fórnfúst starf í þágu félagsins frá stofnun þess. 

„Ég hef unnið sem fjármálastjóri frá stofnun Forlagsins og kveð afar þakklát og ánægð fyrir allan þann tíma og þau tækifæri sem ég hef fengið,” er haft eftir Þórhildi Garðarsdóttur og Egill kveðst kveðja Forlagið afar stoltur og sáttur.

„Í dag er Forlagið ekki bara leiðandi bókaútgefandi heldur rekur það jafnframt stærstu bókaverslun landsins að Fiskisklóð og auk þess stærstu netverslun á Íslandi með bækur. Fyrirtækið stendur á tímamótum og ég er sannfærður um að það verði áfram leiðandi á sínu sviði,“ er haft eftir Agli í tilkynningunni.

mbl.is