Fjórðungur landsmanna myndi kjósa Samfylkinguna

Samfylkingin mælist með hæsta fylgið.
Samfylkingin mælist með hæsta fylgið. Ljósmynd/Aðsend

Rúmur fjórðungur landsmanna myndi kjósa Samfylkinguna ef gengið yrði til Alþingiskosninga í dag, samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup, og mælist fylgi flokksins hæst á landsvísu. Fjórtán ár eru liðin frá því að það gerðist síðast.

Á eftir Samfylkingunni kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 23,5% fylgi en fylgi þeirra lækkar lítillega frá síðustu könnun í desember, þá mældist það 23,8%. Tekið er fram að ekki sé tölfræðilega marktækur munur á flokkunum tveimur.

Þjóðarpúls Gallup

Vinstri græn með 6,8%

Almennt virðast litlar breytingar vera á fylgi flokka á milli mánaða eða á bilinu 0-0,18 prósentustig. 

Flokkurinn með þriðja mesta fylgið er Framsóknarflokkurinn en 11,3% myndu kjósa hann ef gengið yrði til kosninga í dag. Flokkurinn missir 0,9 prósentustig frá síðustu könnun. Af stjórnarflokkunum mælist Vinstri græn með lægsta fylgið, eða einungis um 6,8%. Fylgið stendur í stað frá síðustu könnun en er einungis liðlega helmingur af því sem flokkurinn var með í síðustu Alþingiskosningum.

Þá hefur stuðningur við ríkisstjórnina lækkað um eitt prósentustig frá því í desember og mælist hann nú í 46%.

Tekið skal fram að tæplega 17% þeirra sem tóku þátt vildu ekki gefa upp afstöðu og rúmlega 9% sögðust skila auðu, ef kosið yrði í dag.

mbl.is