Hættir sem formaður Geðhjálpar

Héðinn Unnsteinsson hefur gegnt formennsku hjá Geðhjálp í þrjú ár.
Héðinn Unnsteinsson hefur gegnt formennsku hjá Geðhjálp í þrjú ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Héðinn Unnsteinsson hefur ákveðið að stíga til hliðar eftir þriggja ára formennsku hjá Landssamtökunum Geðhjálp.

Nýr formaður verður kosinn á aðalfundi samtakanna þann 30. mars næstkomandi en þangað til mun varaformaður samtakanna, Elín Ebba Ásmundsdóttir, gegna hlutverki formanns. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef samtakanna, sem er undirrituð fráfarandi formanninum.

Héðinn hefur komið að samtökunum í nærri 30 ár og setið í stjórn þeirra í 7 ár. 

Þakklát fyrir 7.400 styrktarfélaga

„Landsamtökin Geðhjálp standa vel. Okkur hefur auðnast að fá til liðs við okkur um 7.400 mánaðarlega styrktarfélaga sem við erum afar þakklát fyrir. Styrktaraðila sem gera samtökunum kleift að vaxa og dafna og draga úr þörf fyrir opinberan stuðning,“ segir í tilkynningunni.

Héðinn vonast þá til þess að landsmenn veiti Geðhjálp áfram þann styrk sem þeir hafa gert undanfarin ár. 

„Það er fyrir samstöðu ykkar sem við stöndum sterk og horfum bjartsýn fram á veginn,“ eru lokaorðin í orðsendingu Héðins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert