Katrín fundaði með forseta Kósóvó

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, og Vjosa Osmani, forseti Kósóvó.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, og Vjosa Osmani, forseti Kósóvó. Ljósmynd/Forsetaskrifstofa Kósovó

Forseti Kósóvó, Vjosa Osmani, fundaði hér á landi með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra í gær.

Meðal þess sem var rætt var formennska Íslands í Evrópuráðinu, tvíhliðasamskipti á milli Íslands og Kósóvó og staða friðarviðræðna milli Serbíu og Kósovó, að því er fram kemur í tilkynningu Stjórnarráðsins.

Katrín og Þórdís Kolbrún hvöttu Osmani til að leita allra leiða til að ná samkomulagi við nágrannaríki sitt sem allra fyrst.

Kósovó sótti formlega um aðild að Evrópuráðinu í maí 2022 en umsóknin er nú til umfjöllunar í framkvæmdastjórn ráðherranefndar Evrópuráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert