Múlaþing tekur á móti allt að 40 flóttamönnum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Björn Ingimarsson, sveitarstjóri …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, undirrita samninginn. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings undirrituðu í dag samning um samræmda móttöku flóttafólks í Múlaþingi. Samkvæmt samningnum tekur Múlaþing í samstarfi við stjórnvöld á móti allt að 40 flóttamönnum á árinu.

Þetta er sjöundi samningurinn sem undirritaður er um samræmda móttöku flóttafólks á skömmum tíma. Auk Múlaþings hafa Akureyri, Árborg, Hafnarfjörður, Hornafjörður, Reykjanesbær og Reykjavíkurborg undirritað samninga við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.

Samræmd móttaka flóttafólks nær til fólks sem fengið hefur alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi. Markmiðið er að tryggja flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur og í hvaða sveitarfélagi það sest að. Lögð er áhersla á nauðsynlega aðstoð til að vinna úr áföllum og að fólk fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, svo sem með atvinnu, samfélagsfræðslu og námi, þar með talið íslenskunámi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert