Skora á stjórnvöld að auka fjárframlög

Flóðið féll fimmtudaginn 26. janúar.
Flóðið féll fimmtudaginn 26. janúar. mbl.is/Guðlaugur Albertsson

Bæjarráði Vesturbyggðar þykir mikil mildi að ekki hafi farið verr í flóðunum sem féllu í sveitarfélaginu 26. janúar þar sem farvegur flóðanna var í gegnum þorpin og við aðkomuna inn á Patreksfjörð þar sem m.a. skólabíll átti leið hjá fyrr um morguninn.

Bæjarráðið skorar á stjórnvöld að auka fjárframlög til ofanflóðavarna og að allt sé gert til þess að draga úr ofanflóðahættu á byggðir og fjölfarna vegi innan Vesturbyggðar. 

Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs Vesturbyggðar á fundi sem var haldinn í gær.

Bæjarráð mun óska eftir fundi með Ofanflóðasjóði, ráðherraumhverfis-, orku- og loflagsráðherra, innviðaráðherra og forsætisráðherra. Bæjarins besta greinir fyrst frá. 

30 til 50 metrar á breidd

Krapaflóð féll úr Geirseyrargili á Patreksfirði í síðasta mánuði. Flóðið er talið hafa verið um 30 til 50 metrar á breidd og var hættustigi almannavarna lýst yfir í kjölfarið. 

Í vettvangsskýrslu Veðurstofu Íslands um atburðinn segir að rúmmál krapahlaupsins þar sem að það flæddi úr gilinu hafi verið tvö til þrjú þúsund rúmmetrar.

Þá kemur einnig fram að skömmu eftir að krapaflóðið féll úr Geirseyrargili féllu krapaspýjur úr Búðargili og Gilsbakkagili á Bíldudal og vott snjóflóð féll úr Raknadalshlíð og lokaði veginum.

mbl.is