Starfsmaður VR skorar formanninn á hólm

Elva Hrönn býður sig fram gegn Ragnari.
Elva Hrönn býður sig fram gegn Ragnari.

Elva Hrönn Hjartardóttir, starfsmaður verkalýðsfélagsins VR, gefur kost á sér í embætti formanns félagsins í kosningum til formanns og stjórnar sem haldnar verða í mars.

Frá þessu greinir Elva í tilkynningu og skorar þar með á hólm sitjandi formann, Ragnar Þór Ingólfsson, sem áður hefur tilkynnt að hann sækist eftir að leiða félagið áfram.

Í tilkynningunni segir að Elva Hrönn sé stjórnmálafræðingur að mennt og hafi starfað sem sérfræðingur á þróunarsviði í VR síðan í byrjun desember 2019, við markaðs- og upplýsingamál og fleira.

Verkalýðsmál alltaf verið Elvu hugleikin

„Verkalýðsmál hafa alltaf verið Elvu Hrönn hugleikin en hún hóf vegferð sína í VR sem trúnaðarmaður árið 2013 og sat jafnframt í trúnaðarráði 2014-2015, auk þess sem hún var varamaður í stjórn Landssambands íslenzkra verzlunarmanna árið 2015. Hún hefur verið formaður alþjóðanefndar ASÍ síðastliðin tvö ár,“ segir í tilkynningunni.

Tekið er fram að hún þekki VR, málefnin og verkalýðshreyfinguna vel og brenni fyrir hagsmunastarfi í þágu launafólks.

„Hún vill með framboði sínu gefa félögum færi á að velja formann félagsins enda byggist félagið á lýðræðislegum grunni. Hún leggur áherslu á að þau mikilvægu mál sem núverandi formaður VR hefur haldið uppi, líkt og húsnæðis-og lífeyrismál og kjör hinna lægst launuðu, fái áfram brautargengi.

Eigi ekki að láta sitt eftir liggja

Elva Hrönn vill þó beita sér fyrir hagsmunum félagsfólks á breiðari grundvelli þar sem fjölbreytileikinn í félaginu og tekjudreifing er mikil og engin megi gleymast í hagsmunabaráttunni,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

„Elva Hrönn leggur áherslu á jafnréttis- og mannréttindamál, umhverfismál, starfsmenntamál, atvinnulýðræði, málefni ungs fólks og önnur málefni sem varða félagsfólk VR og samfélagið allt, enda eigi stærsta stéttarfélag á Íslandi ekki að láta sitt eftir liggja þegar kemur að hvers kyns málefnum sem hafa áhrif á félagsfólk þess.“

Elva Hrönn er gift Andra Rey Haraldssyni, formanni Félags íslenskra rafvirkja og starfskrafti Ákvæðisvinnustofu rafiðna, og eiga þau saman tvö börn.

Þeim sem vilja styrkja framboð Elvu Hrannar með frjálsum framlögum er bent á sérstakan kosningasjóð. Verði afgangur í sjóðnum að kosningum loknum mun hann renna til góðgerðarmálefna, að því er segir í tilkynningu, þar sem gefnar eru upp reikningsupplýsingar:

Kennitala: 260384-2609
Reikningsnúmer: 0123-26-054703

Hægt verði að hafa samband við framboðið á: frambod@elvahronn.is

Að öður leyti er vísað á Facebook-síðu Elvu og Instagram-reikning.

mbl.is