Talsverð úrkoma og snarpar vindhviður

Vindaspá fyrir landið klukkan 18 í dag.
Vindaspá fyrir landið klukkan 18 í dag. Kort/Veðurstofa Íslands

Það gengur yfir suðaustan og sunnan hvassviðri eða stormur í dag, 15 til 25 m/s. Víða rigning og talsverð úrkoma verður um tíma á sunnanverðu landinu. 

Það hlýnar og verður hiti 3 til 9 stig seinnipartinn. Í kvöld verður suðvestlægari átt og veður ferð kólnandi. 

Gular viðvaranir vegna veðurs taka víða gildi á Suður- og Vesturlandi og miðhálendi á hádegi. Síðdegis bætast við viðvaranir á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.

Fólki er bent á að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón og ganga frá lausamunum. Snarpar vindhviður geta orðið við fjöll sem geta verið varhugaverðar fyrir vegfarendur og ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Á morgun verður suðvestan 13 til 18 m/s og él, en þurrt austanlands og hægari vindur þar fram eftir degi. Hiti um og undir frostmarki.

mbl.is