Telur líklegt að dómur falli með SA

Ragnar Árnason, lögmaður SA, er hér til hægri í félagsdómi …
Ragnar Árnason, lögmaður SA, er hér til hægri í félagsdómi í dag. Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður ASÍ er til vinstri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Árnason, lögmaður Samtaka atvinnulífsins, telur að dómur falli ekki seinna en á mánudag í Félagsdómi vegna stefnu SA gegn Alþýðusambandi Íslands fyrir hönd Starfsgreinasambandsins vegna boðaðs verkfalls Eflingar.

Fyrirtaka var í Félagsdómi í dag vegna stefnu Samtaka atvinnulífsins. SA telja ótímabundið verkfall félagsfólks Eflingar á sjö hótelum sem á að koma til framkvæmda 7. febrúar klukkan 12, vera ólögmætt vegna þess að Efling neitaði að afhenda félagatal til að greiða atkvæði um miðlunartillögu.

„Ég tel meiri líkur en minni að dómurinn falli Samtökum atvinnulífsins í hag,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is í húsakynnum Landsréttar í dag, þar sem Félagsdómur er til húsa.

„Bæði vegna framlagnar miðlunartillögu sem ætti að öllu óbreyttu að skapa friðarskyldu á meðan atkvæðagreiðsla er í kynningu og í atkvæðagreiðslunni sjálfri, en einnig vegna ólögmætra athafna Eflingar að hindra atkvæðagreiðsluna.

Að öllu óbreyttu þá hefði atkvæðagreiðslan að hálfu ríkissáttasemjara að vera yfirstaðin og niðurstaðan komin í atkvæðagreiðslu bæði Eflingarfélaga og Samtaka Atvinnulífsins,“ segir Ragnar og bætir við að Efling hafi hindrað framgang þessara atkvæðagreiðslna.

Á ekki von á að dómur falli í dag

Í fyrirtökunni í dag kom fram að ekki er áætlað að það verði neinar skýrslutökur er málið verður tekið til aðalmeðferðar í dag klukkan fjögur.

Ragnar á ekki von á að dómur falli í dag en hann telur að málflutningur klárist um klukkan 18 í kvöld. Hann telur að niðurstaða ætti að vera komin ekki seinna en á mánudaginn.

mbl.is