Vind lægir og það kólnar

Vindaspáin á landinu kl. 15 í dag.
Vindaspáin á landinu kl. 15 í dag. Kort/Veðurstofa Íslands

Það er hvöss suðaustan átt núna sem snýst yfir í sunnanátt vestan til á landinu og það mun rigna nokkuð. Heyrst hefur að ferðalangar sem hafa keyrt Kjalarnesið hafa fundið þar fyrir snörpum vindi, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. 

Síðan fer vindur að ganga niður hægt og bítandi í höfuðborginni upp úr klukkan fimm í dag, en þá hvessir norðvestan til á landinu. Það stendur áfram fram eftir kvöldi og nóttu eftir að áttin snýst til suðvesturs.

Vind lægir á höfuðborgarsvæðinu uppúr fimm í dag, en rigning …
Vind lægir á höfuðborgarsvæðinu uppúr fimm í dag, en rigning og skúrir og lækkandi hitastig með kvöldinu. mbl.is/Hákon

Búist er við að með kvöldinu verði rigningin orðin skúrakenndari og að það kólni um land allt með éljum alls staðar á landinu nema á norðvesturhorninu í nótt og á morgun að sögn veðurfræðings

Aftur rok á sunnudag

Á morgun, laugardag verður vindur aðeins hægari, á bilinu 13-18 m á sekúndu, en það mun samt ganga á með éljum og þá gæti skafið nokkuð á morgun. Á sunnudag er aftur útlit fyrir hvassa sunnanátt með rigningu og vindhviður víða 30-40 m á sekúndu, einkum um vestanvert landið.

Það verður því ekki frábært ferðaveður, en þó ólíklegt það verði gefin út appelsínugul viðvörun eins og áður var búist við, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu. 

Veðurvefur mbl.is

mbl.is