Vongóður um að réttlætið muni sigra

Halldór Benjamín í Félagsdómi í dag.
Halldór Benjamín í Félagsdómi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég virði auðvitað sjálf­stæði dóm­stóla og ber fullt og óskorað traust til ís­lenska dóms­kerf­is­ins,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), í samtali við mbl.is að lokinni aðalmeðferð í máli SA gegn Eflingu fyrir Félagsdómi í dag.

Aðalmeðferð lauk rétt fyrir klukkan hálf sjö í kvöld.

Deilt er um lögmæti ótíma­bundins verk­falls fé­lags­fólks Efl­ing­ar á sjö hót­el­um.

Sérfræðingar tali með afdráttarlausum hætti

Ragnar Árnason, lögmaður SA, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að hann teldi líklegt að niðurstaða dómsins yrði SA í vil. Spurður hvort hann sé á sama máli og Ragnar segist Halldór Benjamín vera vongóður.

„Ég hins vegar legg við hlustir þegar Ásmundur Stefánsson, fyrrverandi ríkissáttasemjari og fyrrverandi forseti Alþýðusambandsins, og það sem ég hef kallað, og margir tekið undir, æðsti prestur íslenskrar verkalýðshreyfingar, talar með jafn afdráttarlausum hætti um miðlunartillögu og heimildir ríkissáttasemjara,“ segir Halldór.

„Hið sama geri ég þegar Lára V. Júlíusdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, einn fremsti vinnuréttarsérfræðingur landsins og fyrrverandi aðaldómari Alþýðusambands Íslands í Félagsdómi, tekur af öll tvímæli um þá stöðu sem upp er komin. Þá get ég ekki annað en verið vongóður um að réttlætið muni sigra og að félagsmenn Eflingar geti nýtt lýðræðislegan rétt sinn til að greiða atkvæði um miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Þannig að ég er vongóður.“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, kom einnig í húsnæði Félagsdóms í …
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, kom einnig í húsnæði Félagsdóms í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gríðarlegir hagsmunir undir

Búist er við niðurstöðu í málinu eigi síður en á mánudag. Halldór Benjamín segir mikilvægt að niðurstaða komi sem fyrst, enda séu gríðarlegir hagsmunir undir.

„Í allra síðasta lagi mun niðurstaða koma á mánudag. Málið er hins vegar í eðli sínu einfalt og auðvitað mun dómurinn skila niðurstöðu eins og fljótt og auðið er. Hér eru gríðarlega miklir hagsmunir undir. Samfélagið gæti illa búið við þá stöðu að í krafti ólögmætra aðgerða gæti Efling engu að síður gengið fram og lamað samfélagið með verkföllum. Þannig að ég vænti þess að dómurinn muni hraða störfum eins og frekast er unnt.“

Áhugavert mál – hefði viljað sjá fleiri í dómssal

Spurður hvernig málflutningurinn hafi gengið í dag segir Halldór Benjamín hann hafa verið fyrirséðan þar sem lögmenn beggja aðila höfðu skilað greinargerðum.

„Kröfur Samtaka atvinnulífsins byggja á því að Efling geti ekki hagnast með því að viðhalda ólögmætu ástandi. Þar er verið að vísa til þess að uppi er, eins og fram kom í málflutningi, algjörlega fordæmalaus staða sem aldrei hefur komið fram á íslensku vinnumarkaði í hartnær 100 ár. Að stéttarfélag neiti að afhenda atkvæðaskrá til að fram geti farið lögmæt kosning um miðlunartillögu ríkissáttasemjara,“ segir Halldór Benjamín.

Fá­mennt var í dómssaln­um í dag og kveðst Halldór gjarnan hafa viljað sjá fleiri í salnum, enda málið mjög áhugavert.

„Það var vísað í ýmis fordæmi hér. Við vorum komin allt aftur til ársins 1938 og 1945. Rætt var um orðsifjar og vísað í danska merkingu orða. Þannig að þetta er mjög áhugavert og leitt að það skyldu ekki hafa verið fleiri áhorfendur hér í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert