Gæti verið hátt í 30 milljóna króna tjón

Það tók um tvo og hálf­an tíma að slökkva eld­inn.
Það tók um tvo og hálf­an tíma að slökkva eld­inn. Ljósmynd/Austurfrétt/Gunnar

Hörður Guðmundsson, eigandi verkfærahússins sem brann við bæinn Ytri-Víðivelli í Fljótsdal í gærkvöldi, segir í samtali við mbl.is að húsið og allt sem var inni í því sé ónýtt og að tjónið sé líklega á milli 20 og 30 milljónir króna. 

Áföst hlaða var við verk­stæðið og er hún að mestu heil segir Hörður.

Hann kom að eld­in­um eft­ir að hafa verið á æf­ingu fyr­ir þorra­blót í fé­lags­heim­il­inu Végarði, sem stend­ur þar nærri, en engum var meint af eldinum. 

Hörður segir að vísbendingar bendi til þess að eld­ur­inn hafi kviknað und­an viðarkynd­ara.

Húsið var um fjögur hundruð fermetrar og verður tjónið nú metið af tryggingarfélagi.  

Uppfært 5. febrúar

Mbl.is barst ábending frá syni Harðar sem er leigutaki á býlinu og átti verkfæri, tæki og efni inni í húsinu sem brann. Áætlað er að það tjón sé á milli 20 til 30 milljónir króna. Hann greinir frá því að húsið sé brunatryggt af eiganda. Þá átti eigandinn dráttarvél sem var inni í húsinu sem brann. 

Verkfærahúsið var um fjögur hundruð fermetrar.
Verkfærahúsið var um fjögur hundruð fermetrar. Ljósmynd/Austurfrétt/Gunnar
mbl.is