Gleðst yfir ummælum Sólveigar Önnu

Friðrik Jónsson, formaður BHM.
Friðrik Jónsson, formaður BHM. Ljósmynd/BHM

„Þetta hefur verið kjarninn í því sem BHM hefur verið að gera í gegnum áratugina, það er að kalla eftir að menntun sé metin til launa. Við höfum mætt oft andspyrnu við þau sjónarmið,“ segir Friðrik Jónsson, formaður BHM, í samtali við mbl.is. 

Í tísti í dag sagði Friðrik það hafa verið „óvæntur glaðningur“ er Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í hádegisfréttum Rúv að meta skuli menntun olíubílsstjóra til launa. 

„Mér fannst þetta athyglisvert og skemmtilegt,“ segir Friðrik og bætir við að yfirlýsingin hafi verið úr óvæntri átt. 

„Þá getur maður ekki annað en glaðst yfir því,“ segir hann en Sólveig Anna hefur áður verið sökuð um að líta niður á menntafólk.

Stífir fundir framundan hjá BHM

Spurður út í stöðuna á vinnudeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins segir Friðrik, að líkt og aðrir, þá bíði hann og BHM eftir úrskurðum Félagsdóms og Héraðsdóms Reykjavíkur í deilunni.

„Vonandi skýrir það þá myndina og síðan í framhaldi af því verður hægt að halda áfram að vinna í því að leysa úr þeim ágreiningi sem er uppi.“

Friðrik nefnir að BHM vinni nú að eigin kjarasamningi við ríkið. 

„Við erum að tala saman og við erum að funda. Það eru stífir fundir framundan.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina