Rifbeinsbrotnaði á sjódreka

Ranny og Felipe eiga tvö börn, þau León og Florenciu, …
Ranny og Felipe eiga tvö börn, þau León og Florenciu, sem tala fína íslensku.

Á tannlæknastofunni Tannlind finnur blaðamaður hina íslensku Rannveigu Grímsdóttur sem er að ljúka sínum síðasta vinnudegi á Íslandi í bili. Rannveig, ávallt kölluð Ranny, býr í Santiago í Síle þar sem hún rekur tannlæknastofu, en síðustu árin hefur hún starfað hér um tvo til þrjá mánuði á ári. Þegar hún var ellefu ára flutti fjölskyldan búferlum til Síle þar sem faðir hennar fékk starf sem útgerðarstjóri hjá fiskvinnslunni Friosur í Patagoníu og fjölskyldan ílentist þar ytra.

Á Íslandi er líka hægt að stunda sjósport, þótt það …
Á Íslandi er líka hægt að stunda sjósport, þótt það sé ívið kaldara en í Síle.

„Við ætluðum að vera þar í eitt ár, en það eru komin 29 ár,“ segir Ranny og brosir.

Sjódrekaflug í brúðargjöf

Eiginmaður Rannyar, Felipe Tocornal, vinnur nú fyrir íslenska tæknifyrirtækið Trackwell, en hann er verkfræðingur.

„Hann er núna heima í Síle í fjarvinnu, en venjulega komum við hingað saman. Hann kemur svo í mars og krakkarnir líka,“ segir hún en þau eiga börnin Florenciu og León, ellefu og níu ára.

„Við kynntumst á skíðasvæði í Santiago fyrir sextán árum þegar ég var 25 ára,“ segir hún og segir þau hjón hafa fengið í brúðargjöf námskeið í sjódrekaflugi, eða „kitesurfing“ eins og það heitir á ensku.

„Síðan þá hefur þetta verið fjölskyldusport.“ 

Getur verið harkalegt

Sjódrekaflugið heltók Ranny algjörlega og hefur hún náð afar góðum árangri í íþróttinni.

„Það er svo mikið frelsi að svífa í vindinum yfir sjónum. Það er keppt í ýmsum mismunandi greinum í íþróttinni, eins og að stökkva eða að keppa í hraða. Í dag eru atvinnumenn í sportinu en ég keppi í þessu og er margfaldur kvennameistari í Síle,“ segir hún en hún hefur einnig keppt með góðum árangri i Argentínu, Mexíko, Spáni, Brasilíu og á Ítalíu. Ranny slasaðist einmitt í síðustu keppni sem haldin var í Brasilíu.

Ranny er margfaldur Sílemeistari í sjódrekaflugi og keppir víða um …
Ranny er margfaldur Sílemeistari í sjódrekaflugi og keppir víða um heim.

„Það er svo mikill hraði og þetta getur verið dálítið harkalegt. Ég datt og braut í mér rifbein,“ segir hún, en hægt er að fylgjast með Ranny á Instagram undir nafninu Ranny_kite.

Ranny stundar einnig sjódrekaflug á Íslandi og segist fara í sjóinn við Gróttu, á Akranesi og Álftanesi.

„Þar er kaldur sjórinn, en mjög gaman! Hér er mjög hress hópur af „kitesurfurum“, aðallega karlmenn,“ segir hún.

Ætlar þú á Ólympíuleikana að keppa í sjódrekaflugi?

„Það væri auðvitað draumur en þá þyrfti ég að hætta tannlækningum og fara að æfa stíft. Og ég er dálítið skotin í tannlækningunum,“ segir hún og hlær.

Ranny nýtur þess að sjá fólk fara brosandi heim úr …
Ranny nýtur þess að sjá fólk fara brosandi heim úr tannlæknastólnum hjá sér. mbl.is/Ásdís

„En ég held áfram að keppa og gera mitt besta, en mér finnst svo gaman í vinnunni að ég get ekki hætt í henni. Mér finnst það líka mín skylda að hjálpa fólki og geri það með tannlækningum.“

Ítarlegt viðtal er við Ranny í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »