Brotist inn í húsnæði frímerkjasafnara

Peningaskápurinn er ónýtur.
Peningaskápurinn er ónýtur. Ljósmynd/Aðsend

Brotist var inn í húsnæði Landssambands íslenzkra frímerkjasafnara í Síðumúla í Reykjavík einhvern tímann á tímabilinu 28. janúar til 4. febrúar en að sögn Gísla Geirs Harðarsonar, formanns sambandsins, var engu verðmætu stolið. 

Í samtali við mbl.is segir hann að óvíst sé hvenær innbrotið var nákvæmlega framið þar sem að húsnæðið sé ekki í mikilli notkun. 

Töluvert var um skemmdir á húsnæði og munum.
Töluvert var um skemmdir á húsnæði og munum. Ljósmynd/Aðsend

Töluvert var um skemmdir á húsnæðinu og munum, en meðal annars höfðu þjófarnir mikið fyrir því að opna peningaskáp í eigu Myntsafnarafélags Íslands sem leigja rými í húsnæðinu. Þar voru þó engin verðmæti geymd. „Það voru bara einhverjar restar sem hefur ekki tekist að selja.“

„Haldið að hann væri að komast í eitthvað“

Gísli segir að tveir gamlir peningaskápar séu í húsnæðinu, en þjófunum tókst einungis að opna annan þeirra.

„Það eru engin verðmæti í húsinu sem slík,“ segir hann og nefnir að þar sé bókasafn og félagsheimili. 

Gísli nefnir að Myntsafnarafélagið sé með uppboð í dag en það sé venjan að lítið sem ekkert sé geymt í húsnæðinu, heldur gangi munirnir á milli seljanda og kaupanda sama dag. 

Gísli segir að peningaskáparnir hafi verið gjöf eða keyptir fyrir lítinn pening á sínum tíma. Í raun hafi það verið óheppilegt að vera með þá þarna, „það hefur greinilega einhver sem hefur komið í heimsókn haldið að hann væri að komast í eitthvað“.

„Það lítur út fyrir að skemmdirnar séu meiri en það sem hefur horfið úr skápnum,“ segir hann og bætir við að skápurinn sem var opnaður sé ónýtur.

Erfitt að koma stolnum munum í verð

Spurður hvort að það hefði ekki verið erfitt að koma stolnum munum í verð hér á landi segir Gísli svo vera. 

Hann segir að ekki sé hlaupið að koma myntinni sem var tekin úr skápnum í verð, ekki sé um tugþúsundir króna að ræða.

Lögreglan var kölluð á vettvang í gær og tók skýrslu. Gísli segir að í vikunni verði svo settur saman listi yfir stolna muni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert