Efling kúgi félagsmenn sína

Drífa Snædal er fyrrverandi forseti ASÍ.
Drífa Snædal er fyrrverandi forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Drífa Snædal, fyrrverandi forseti Alþýðusambandsins (ASÍ), óttast að verið sé að veikja verkalýðshreyfinguna. Hún sakar forystu Eflingar um valdníðslu og skoðanakúgun.

„Ég óttast að það sé verið að veikja verkalýðshreyfinguna mjög mikið núna af því að ný forysta Eflingar hefur til dæmis tilhneigingu til að fara mjög hart gegn eigin félagsmönnum sem eru ekki sammála þeim. Það er eitthvað sem ekki er hægt að líða. Ekki er hægt að sitja hjá og samþykkja,“ segir Drífa og bætir við:

„Það er ákveðin valdníðsla og skoðanakúgun sem felst í því.“

Drífa sagði af sér sem forseti ASÍ í október í fyrra. Í samtali við mbl.is sagði hún að henni hafi ekki verið kleift að halda störfum sínum áfram, meðal annars vegna erfiðra samskipta innan verkalýðshreyfingarinnar.

Á sama máli og Sóley

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag telur Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Vinstri grænna, ekki rétt að krefja femínista um að styðja Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar. Segir hún hægt að standa með láglaunafólki, og þar með láglaunakonum, án þess að styðja Sólveigu Önnu.

Í Silfrinu sakaði Drífa Sólveigu Önnu um að fara ekki vel með vald sitt. Þá sagði hún ekki rétt að halda því fram að þeir sem styðji ekki formanninn séu á móti láglaunakonum.

„Það er ekki hægt að stilla hlutunum þannig upp að ef að þú hyllir ekki Sólveigu Önnu þá sértu á móti láglauna konum eða verkafólki eða réttindum fólks til að fara í verkfall,“ sagði Drífa.

mbl.is

Bloggað um fréttina