Loksins undir sama þaki

UMFÍ er flutt inn í íþróttamiðstöðina í Laugardalnum þar sem …
UMFÍ er flutt inn í íþróttamiðstöðina í Laugardalnum þar sem ÍSÍ er einnig til húsa. mbl.is/Árni Sæberg

Eftir að hafa selt húsnæði sitt í Sigtúni í Reykjavík til Öryrkjabandalags Íslands er Ungmennafélag Íslands, UMFÍ, þessa dagana að koma sér fyrir í íþróttamiðstöðinni við Engjaveg í Laugardalnum. Þar hefur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, ÍSÍ, einmitt lengi verið til húsa.

Í ljósi þess að starfsemi UMFÍ hafði breyst og ekki var lengur talin þörf á öllu húsnæðinu sem félagið átti í Sigtúni var ákveðið að selja það ÖBÍ en starfsemi þess er einmitt í sama húsi. Félagið var meðal annars farið að leigja út töluvert pláss og því var litið á það sem rétt skref að selja.

„Þegar þú leggur alla þætti saman var það viðskiptaleg ákvörðun að selja,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ. Söluverðið var um 260 milljónir króna en þjónustumiðstöð félagsins var þar til húsa.

Starfsfólk er í óða önn að koma sér fyrir í …
Starfsfólk er í óða önn að koma sér fyrir í nýja húsnæðinu. mbl/Árni Sæberg

Ákveðið var að láta reyna á það sem rætt hefur verið um lengi í hreyfingunum í tveimur, UMFÍ og ÍSÍ, um að þær störfuðu í meiri nálægð hvor við aðra. Sú fyrrnefnda var stofnuð á Þingvöllum árið 1907 en hin síðarnefnda fimm árum síðar. Báðar eru þær því orðnar yfir 110 ára gamlar en hafa aldrei áður verið undir sama þaki. „Við erum spennt fyrir því að sjá hvort samstarfið muni ekki aukast enn frekar samhliða þessu,“ segir formaðurinn. 

Mannlegi þátturinn í fyrirrúmi

Innanhússhönnuðurinn Leifur Welding hannaði nýja húsnæðið við Engjaveg, sem er í aðstöðu UMSK, eins af aðildarfélögum UMFÍ. „Það er verið að breyta því að okkar þörfum. Við vonumst til að það haldi vel utan um starfsmennina og starfsemina, því hún byggir á mannlega þættinum,“ bætir Jóhann Steinar við.

Horfa ekki í baksýnisspegilinn

Spurður nánar út í samstarfið við ÍSÍ í ljósi þess að nokkur rígur var á milli hreyfinganna tveggja á árum áður segir Jóhann Steinar að vissulega hafi þær deilt opinberlega í fjölmiðlum á sínum tíma. „Eftir að ég kom inn í þetta hef ég ekki verið að skynja þetta. Þetta er meira hluti gamalla tíma. Auðvitað er fólk í hreyfingunni sem man eftir þessu,” segir hann en leggur áherslu á gildi UMFÍ um mikilvægi góðrar samvinnu.

„Við erum ekkert að horfa í baksýnisspegilinn varðandi þetta heldur að nýta aðföng og kraft íþróttahreyfingarinnar til að gera betur fyrir íþróttafélögin í landinu,“ greinir hann frá og nefnir að nú þegar finni hann fyrir ákveðinni dínamík í íþróttamiðstöðinni. „Það eru margir aðilar í íþróttalífinu sem eru þarna. Það er fullt sem gerist á göngunum.“

Um 20 starfsmenn á fimm stöðum

Jóhann Steinar lýsir því að kórónuveirutíminn hafi verið notaður til að „ydda blýantinn“ til að ná fram skarpari sýn á starfsemi félagsins. Tvö stærstu verkefni þess eru annars vegar mótin, þ.e. landsmót og unglingamót, og hins vegar rekstur ungmenna- og skólabúða.

22 manns starfa hjá UMFÍ á fimm starfsstöðvum. Fimm starfa í Reykjavík, framkvæmdastjóri móta starfar á Sauðárkróki, forstöðumaður skóla- og ungmennabúða UMFÍ er á Hvanneyri og afgangurinn starfar í skólabúðunum á Reykjum í Hrútafirði og í ungmennabúðunum á Laugarvatni.

Hér má lesa nánar um sögu UMFÍ. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert