Munu áfrýja ef dómur fellur ekki þeim í vil

Sólveig Anna segir ríkissáttasemjara aldrei hafa sýnt kjaradeilu Eflingar áhuga.
Sólveig Anna segir ríkissáttasemjara aldrei hafa sýnt kjaradeilu Eflingar áhuga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, gerir ráð fyrir því að Efling muni áfrýja niðurstöðunni ef héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að Efling þurfi að afhenda ríkissáttasemjara félagaskrá sína.

Hún segir ríkissáttasemjara aldrei hafa sýnt kjaradeilu Eflingar áhuga og aldrei knúið á um að eðlilegt og faglegt samtal ætti sér stað í viðræðunum. Þetta kom fram í máli Sólveigar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

„Þetta eru viðkvæmar persónuupplýsingar“

Til að atkvæðagreiðsla geti farið fram um miðlunartillögu sem ríkissáttasemjari hefur lagt fram, þarf hann að fá í hendur félagaskrá, því hún gegnir hlutverki kjörskrár. Efling hefur hins vegar neitað að afhenda hana og málið því komið fyrir héraðsdóm. Þinghald fór fram á föstudag og möguleiki er á að niðurstaða liggi fyrir á morgun.

„Um leið og niðurstaða liggur fyrir munum við meta hver næstu skref verða. Ég hef fulla trú á því að í báðum þessum málum muni Efling hafa sigur. Allur málatilbúnaður er svo ótrúlega langsóttur og yfirgengilegur. Ríkissáttasemjari fer fram á að við afhendum kjörskrána. Við segjum að það sé einfaldlega ólöglegt, við ætlum ekki að gera það. Þetta eru viðkvæmar persónuupplýsingar.“

Efling telur einnig að Félagsdómur muni dæma Eflingu í vil í máli SA gegn félaginu, þar sem farið er fram á að verkfallsboðun verði dæmd ólögleg, enda sé málatilbúnaður með ólíkindum.

Ástæðan ekki þvermóðska forystu Eflingar 

Aðspurð viðurkenndi Sólveig að hún myndi láta draga þessa lista út úr sér með töngum.

„Jú, augljóslega. Og ástæðan fyrir því er ekki þvermóðska eða einbeittur brotavilji minn og samninganefndar Eflingar, heldur það að þessi framganga ríkissáttasemjara sem Samtök atvinnulífisins ætla líka að nota til að fá atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir Eflingar dæmdar ólöglegar. Það er hið ólöglega.“

Sólveig benti jafnframt á að öll heildarsamtök fólks á almennum vinnumarkaði ásamt fjölda annarra sjálfstæðra félaga hefðu stigið fram og fordæmt framgöngu ríkissáttasemjara.

Þegar atburðarásin sé skoðuð þá sé það skýrt að fljótlega eftir að kjaradeildu Eflingar var vísað til ríkissáttasemjara hafi komið í ljós að enginn vilji hafi verið hjá embættinu „til að knýja á um að raunverulegar og eðlilegar samningarviðræður færu af stað.“

„Það voru engar samningsviðræður“ 

Hún hafi aldrei upplifað slíkt áður. „Það voru engar samningsviðræður.“ Efling hafi mætti með kröfugerð og svo komið með þrjú tilboð þar sem tilboð SA hafi verið nálgast verulega.

„Ríkissáttasemjari hefur aldrei knúið á um það að eitthvað og faglegt ætti sér stað í þessum viðræðum en við þó gerðum okkar besta.“

Gagnrýndi Sólveig meðal annars að ríkissáttasemjari hefði sjálfur ekki mætt á vinnufund á milli jóla og nýárs sem hann boðaði. „Þegar ég spurði hvers vegna hann væri ekki, þá var mér tilkynnt að það væri mikið að gera hjá honum og að hann þyrfti að hitta þyrluflugmenn. Þetta er auðvitað staðfesting á því hversu lítinn áhuga hann hefur sýnt þessari deilu. Hversu ófaglega öll hans nálgun hefur verið og það er aðdragandi þessarar fráleitu ákvörðunar sem hann tekur að ganga alla leið og svipta okkur okkar sjálfstæða samningsrétti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina