Þurfa að „vinna sig nánast í hel“ til að ná 893.000

Olíubirgðastöðin í Örfirisey. Örvar Þór Guðmundsson trúnaðarmaður kveður olíubílstjóra langan …
Olíubirgðastöðin í Örfirisey. Örvar Þór Guðmundsson trúnaðarmaður kveður olíubílstjóra langan veg frá því að vera hálaunastétt þótt hægt sé að hækka launin með botnlausri yfirvinnu. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er alrangt. Í fyrsta lagi erum við ekki hálaunastétt og í öðru lagi erum við ekki bara karlar því fleiri en ein kona vinnur sem bílstjóri hjá okkur í Olíudreifingu,“ segir Örvar Þór Guðmundsson, bílstjóri og trúnaðarmaður hjá fyrirtækinu, í samtali við mbl.is um þau ummæli Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, að olíubílstjórar innan raða Eflingar væru hálaunahópur.

„Það er kannski hægt að komast upp í þessa upphæð sem hann nefnir [893.000 krónur] með því að vinna sig nánast í hel, það er staðreynd, en að slá því fram að þarna sé Efling að berjast fyrir einhvern hálaunahóp karla í íslensku samfélagi er alveg út í hött,“ segir trúnaðarmaðurinn.

Þá kveðst hann ákaflega ósáttur við háværar raddir í þjóðfélagsumræðunni um að Eflingarfólk teljist ábyrgt fyrir því að samningar náist ekki. „Það þarf lágmark tvo aðila til að standa í deilum og staðreyndin er sú að á fundum áður en deilan fór í hnút lækkuðu fulltrúar Eflingar sínar kröfur í þrígang á meðan Samtök atvinnulífsins hafa ekki viljað hreyfa sig um tommu,“ segir Örvar, „og svo skella þeir skuldinni einungis á okkur.“

„Það erum við sem erum þau erfiðu“

Hann segir mjög hallað á Eflingarfólk í almennri umræðu. „Það erum við sem erum þau erfiðu og það er Sólveig Anna sem vill ekki semja og svo erum það við sem erum að valda samfélaginu tjóni,“ heldur hann áfram.

Neiti annar aðilinn að fallast á nokkrar breytingar sé þeim sama ekki stætt á því að halda því fram að hinn aðilinn, í þessu tilfelli Efling, sé að skaða hagsmuni þjóðarinnar. Málið sé einfalt, vilji SA koma í veg fyrir verkfall skuli samtökin koma að samningaborðinu með tilboð sem báðir aðilar geti sætt sig við.

„Það erum við sem erum þau erfiðu og það er …
„Það erum við sem erum þau erfiðu og það er Sólveig Anna sem vill ekki semja,“ segir Örvar að sé viðkvæðið í almennri umræðu þessa dagana. Þetta telur hann fjarri sanni. Ljósmynd/Aðsend

„Þessi kjaradeila er öll mjög undarleg í sögulegu samhengi. Í gamla daga var þetta þannig þegar samningar voru gerðir að samið var fyrst við eitt stærsta stéttarfélag landsins, Dagsbrún, og svo var talað við önnur stéttarfélög. En nú er hins vegar fyrst samið við minni félög og svo reynt að fá eitt stærsta stéttarfélag landsins núna [Eflingu] til að samþykkja þá samninga og neitað að fara að nokkrum kröfum Eflingar,“ segir Örvar.

Með lífið í lúkunum

Hann kveðst stuðningsmaður verkfalls gangi málið svo langt og bendir á að auðveldlega megi rökstyðja þá 670 króna hækkun á tímakaupi sem farið sé fram á. „Þetta hefur verið í umræðunni árum saman, þetta er ekki almenn launakrafa, þetta er álag sem við viljum fá fyrir þær hættulegu aðstæður sem við vinnum við. Eru þær einskis virði?“ spyr Örvar.

Hann bendir á að íslenskir olíubílstjórar hafi um árabil þurft ADR-réttindi til starfs síns, réttindi til að flytja hættulegan farm á vegum. „Við þurfum alþjóðlegt ADR-skírteini og þurfum að sitja námskeið og standast reglulega próf til að halda þessum réttindum og þetta er ekki metið til launa hérlendis,“ segir Örvar.

Trúnaðarmaðurinn kveður það ekkert grín að vera með lífið í …
Trúnaðarmaðurinn kveður það ekkert grín að vera með lífið í lúkunum á leið til Ísafjarðar með fullan 43.000 lítra tank í alls konar færð. Ljósmynd/Aðsend

„Þú ert bara með lífið í lúkunum. Þú getur ímyndað þér að vera að keyra í vetrarfærð með 43.000 lítra af eldsneyti,“ segir bílstjórinn sem sjálfur ekur meðal annars frá Örfirisey í Reykjavík til Ísafjarðar með fullan tankbíl.

„Í viðbót við það eru þetta heilsuspillandi efni, bensíngufur eru krabbameinsvaldandi og við þurfum að anda þessu að okkur á hverjum degi. Ég veit ekki betur en aðrar starfsstéttir sem vinna við heilsuspillandi aðstæður vilji fá greitt fyrir það og bendi auk þess á að ef eitthvað kemur upp á erum það við bílstjórarnir sem berum ábyrgðina, rétt eins og flugstjórar eða skipstjórar,“ segir Örvar Þór Guðmundsson trúnaðarmaður og lýkur máli sínu með því að þetta álag vilji þeir bílstjórar fá inn í laun og kjarasamninga.

mbl.is

Bloggað um fréttina