Viðburðarík vika fram undan

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari og Sólveig …
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Samsett mynd/mbl.is

Viðburðarík vika er fram undan í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA). 

Á morgun má vænta niðurstöðu í máli SA gegn Eflingu þar sem deilt er um lög­mæti ótíma­bund­ins verk­falls fé­lags­fólks Efl­ing­ar á sjö hót­el­um.

Ef dómurinn metur verkfallið ólögmætt verður ekkert úr verkfalli um 300 félagsmanna Eflingar á Íslandshótelum í Reykjavík sem á að hefjast á hádegi á þriðjudag. 

Varakrafa stefnu SA er á þá leið að Eflingu „sé óheimilt að láta verkfall, sem boðað var með bréfi 31. janúar 2023, koma til framkvæmda þar til eftir að niðurstaða liggur fyrir í atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu ríkissáttasemjara“. 

Á þar við verkfallsboðanir félagsmanna Eflingar sem starfa á hótelkeðjum og í vörubílaakstri og olíudreifingu. Þar er um 570 manna hóp að ræða sem greiðir nú atkvæði um verkfall. Þeirri atkvæðagreiðslu lýkur kl 18 á þriðjudag. 

Því má gera ráð fyrir að Félagsdómur taki afstöðu til lögmæti miðlunartillögu ríkissáttasemjara sem var lögð fram 27. janúar, þar sem að samkvæmt stefnu SA er ekki hægt að fara í verkfall fyrr en búið er að greiða atkvæði um miðlunartillöguna. 

Ekki er hægt að áfrýja niðurstöðu Félagsdóms. 

Málsaðilar vildu ekki tjá sig 

Þá er niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur einnig að vænta í vikunni vegna máls ríkissáttsemjara gegn Eflingu. 

Rík­is­sátta­semj­ari leit­aði at­beina héraðsdóms til að fá af­henta kjör­skrá Efl­ing­ar vegna at­kvæðagreiðslu um miðlun­ar­til­lög­una.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í þætt­in­um Sprengisandi á Bylgj­unni í morg­un að hún gerði ráð fyrir að áfrýja því máli ef héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að Efling þurfi að afhenda skrána. 

Þriðja dómsmálið í deilunni er einnig hjá héraðsdóm en í því máli stefnir Efling ríkissáttasemjara og krefst ógildingar á miðlunartillögunni. Stefnan var lögð fyrir héraðsdóm á föstudag og óskaði stéttarfélagið eftir flýtimeðferð. 

Hvorki Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, né Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari vildu tjá sig um stöðu mála við mbl.is síðdegis í dag. Þá náðist ekki í Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert