Boðar SA og Eflingu á fund um atkvæðagreiðslu

Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari.
Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari býst við og ætlast til að Efling afhendi kjörskrá eins og þeim er skyld að gera samkvæmt lögum og nýföllnum úrskurði í héraðsdómi. 

„Félagsmenn geta þá greitt atkvæði milli tillögunar eða halda áfram á þeirri braut átaka sem mörkuð hefur verið,“ segir hann.

Boðar einnig sáttarfund

Aðalsteinn segir í samtali við mbl.is að hann sé búinn að senda hvatningu og ítrekun á kröfu um afhendingu kjörskrárinnar á forystu Eflingar og boðað til fundar til að ræða fyrirkomulag atkvæðagreiðslu. „Þá er ég reyndar líka búinn að boða til sáttafundar í málinu.“

Sáttarfundurinn er boðaður klukkan hálf fjögur á morgun en ekki liggur fyrir hvort að deiluaðilar hafi fallist á fundinn.

Spurður hvenær megi eiga von á að atkvæðagreiðslur hefjist um miðlunartillöguna segir Aðalsteinn að hann muni funda með báðum aðilum deilunnar, Eflingu og Samtökum atvinnulífsins, um fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar og muni svara því eftir þá fundi.

Vinnur eftir bestu samvisku

„Skýrt er í úrskurði héraðsdóms er að miðlunartillagan er löglega upp borin. Þá er það skýrt að Eflingu beri að afhenda kjörskrá til þess að félagsmenn Eflingar geti tekið afstöðu til miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Þá er skýrt fjallað um það í úrskurði héraðsdóms að verkfallsréttur sé ekki í borð borinn með miðlunartillögunni enda eru afdrif miðlunartillögunar í hendum félagsmanna þegar kosning á sér stað,“ segir Aðalsteinn svo um niðurstöðu héraðsdóms frá í morgun.

Hvað finnst þér um kröfu formanns Eflingar um að þú stígir til hliðar í meðhöndlun kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins?

„Ég er að vinna eftir bestu samvisku að minni lagaskyldu og mun halda því áfram.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert