Dæmdur í annað skiptið fyrir stórfelld skattabrot

Báðir dómarnir yfir manninum féllu í Héraðsdómi Reykjaness.
Báðir dómarnir yfir manninum féllu í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið dæmdur í eins árs skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 207 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs vegna meiri hátta skattalagabrota Er þetta í annað skiptið á innan við ári sem hann er dæmdur fyrir stórfellt skattalagabrot sama félags.

Maðurinn, Hjálmar Árnason, var framkvæmdastjóri og einn eigandi verktakafyrirtækisins H28 efh. (áður Byggás ehf.). Hann var ákærður fyrir að hafa ekki greitt virðis­auka­skatt né staðgreiðslu frá lok­um árs 2019 til fyrri hluta árs­ins 2021 upp á sam­tals rúm­lega 100 millj­ón­ir króna. Nam ógreiddur virðisaukaskattur samtals um 23,4 milljónum, en ógreidd staðgreiðsla um 78 milljónum.

Hann játaði brot sín skýlaust fyrir dómi, en í dóminum er tekið fram að á móti sé horft til þess að um háar upphæðir sé að ræða. Er refsing hans sem fyrr greinir skilorðsbundin, en greiði hann ekki 206,8 milljóna sekt innan fjögurra vikna skal hann sæta 360 daga fangelsis.

Maðurinn hlaut í apríl í fyrra 15 mánaða skilorðsbundinn dóm og var gert að greiða 127 milljónir í sekt vegna skattalagabrot sem einnig tengdust H28. Kemur fram í dóminum núna að refsing hans sé dæmd sem hegningarauki er samsvari þeirri þyngingu refsingar sem kynni að hafa orðið ef dæmt hefði verið um brotin í sama máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert