Ekki hægt að tryggja mannlega þáttinn

Efri myndin sýnir frá aðgerðum slökkviliðsins í morgun við Skriðuland …
Efri myndin sýnir frá aðgerðum slökkviliðsins í morgun við Skriðuland í Langadal. Samsett mynd

„Það er búið að slökkva allan eld en hér er komið leiðindaveður,“ segir Halldór Bjartmar Halldórsson, svínabóndi á Skriðulandi í Langadal, í samtali við mbl.is en Halldór varð fyrir því áfalli að eldur kom upp í svínabúi hans í morgun.

„Það voru um 200,“ svarar hann, inntur eftir því hve mörg dýr hafi drepist í eldsvoðanum, „það eru eldvarnaveggir þarna á milli, húsið er hólfað niður, en það var eitt bil sem fór,“ segir Halldór enn fremur sem er tryggður fyrir tjóninu.

„En það er helst þessi mannlegi þáttur, hann er ekki hægt að tryggja,“ segir bóndinn.

Bæjarhúsin á Skriðulandi. Þar varð tjón í eldsvoða í morgun …
Bæjarhúsin á Skriðulandi. Þar varð tjón í eldsvoða í morgun og fórust þar um 200 svín en sá hluti hússins sem brann verður byggður upp á ný. Ljósmynd/Magnea Jóna Pálmadóttir

Næstu skref séu að koma fóðri á þær skepnur sem í hinum húsunum eru og fyrirbyggja foktjón, „það er leiðindaspá á morgun“, segir Halldór sem býst ekki við öðru en að ráðast í endurbyggingu á þeim hluta hússins.

„Já já, það verður reynt,“ segir hann að lokum, eftir áfallið í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert