Íslendingar hvattir til að hafa samband

Samsett mynd/mbl.is/AFP

Utanríkisráðuneytið birti í morgun tilkynningu þar sem Íslendingar á vettvangi jarðskjálftans sem varð í Tyrklandi í morgun voru hvattir til að hafa samband við borgaraþjónustu ráðuneytisins ef þeir þurfa á aðstoð að halda, eða að láta aðstandendur vita ef þeir eru heilir á húfi.

Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um Íslendinga á þeim svæðum sem hafa orðið verst úti eftir skjálftann, að sögn Sveins Guðmarssonar, upplýsingafulltrúa í utanríkisráðuneytinu.

Samkvæmt Þjóðskrá Íslands voru 16 Íslendingar búsettir í Tyrklandi á síðasta ári.

Sérfræðingar í startholunum

Aðspurður segir Sveinn að Ísland sé eins og jafnan reiðubúið til að aðstoða á vettvangi. Íslenskir sérfræðingar á sviði samhæfingar við leit og rústabjörgun eru á viðbragðslista Sameinuðu þjóðanna og þeir eru í startholunum ef krafta þeirra verður óskað. Íslensk stjórnvöld myndu standa straum af kostnaði við það.

Utanríkisráðuneytið hefur einnig haft samband við Rauða krossinn um að sendifulltrúi þeirra fari á vettvang, verði óskað eftir því.

mbl.is