Ljósin biluðu aftur

Ljósmyndin tengist fréttinni ekki beint.
Ljósmyndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umferðaljósin á gatnamótum Laugavegar/Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar, sem nýlega var gert við eftir nokkurra daga bilun hafa bilað á ný. Orsök bilananna er sú að gufa rataði inn í skápinn sem stjórnar ljósunum.  

Kveikt var aftur á umferðarljósunum við gatnamótin um tíuleytið í morgun en slökkt hefur verið á ljósunum vegna bilunar síðan á laugardag. Gert var við ljósin nú í morgun en slökknaði svo aftur á þeim um eftirmiðdaginn 

Hafsteinn Viktorsson, deildarstjóri hjá hverfastöðinni Fiskislóð, segir að ljósunum hafi verið komið í lag strax á laugardaginn en að þau hafi skyndilega bilað aftur, ekki nema tveimur tímum síðar. 

„Á þessu svæði eru Veitur með borholur og þarna liggur háhitalögn sem er í kringum 120 gráður. Það sem þau telja að hafi gerst er að einangrunin á þessari lögn hafi gefið sig og í leysingunum hafi jarðvatn komist að lögninni sjálfri,“ segir Hafsteinn  

„Gufa fann sér leið upp í skápinn sem stjórnar umferðarljósunum og sá skápur fylltist þá af gufu og þar af leiðandi vatni og olli þar margþættri bilun.“  

Halldór segir að nú sé búið að endurnýja allan skápinn sem varð fyrir skemmdum. Hann segir slík óhöpp hafa gerst áður en þó ekki af þessum skala og ekki á svona óheppilegri staðsetningu.    

„Þetta var mjög erfið bilun,“ segir Halldór og minnist þess að veðurfar helgarinnar hafi ekki hjálpað. 

Hverfastöðin varð ekki vör við nein slys á vettvangi um helgina, á meðan viðgerðir stóðu yfir. Hafi hverfastöðin tilkynnt bilunina til lögreglu og verið í samskiptum við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess var lokað fyrir vinstribeygju á gatnamótunum þar til viðgerðum loksins lauk í morgun. 

Nú hafa ljósin bilað aftur og er orsökin enn gufa sem flæðir úr lögnunum. Hafsteinn segir að ekki sé hægt að vita hve langan tíma það muni taka að gera við ljósin en tæknifólk hafi nú þegar hafist handa við viðgerðir. 

„Ég var að enda við að tala við Veitur og þeir ætla að taka þessa lögn úr þjónustu.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert