Mygluskýrslu stungið undir stól

Foreldri barna í Flataskóla og formaður foreldrafélagsins ræða við mbl.is …
Foreldri barna í Flataskóla og formaður foreldrafélagsins ræða við mbl.is og kveða það mikinn úrdrátt að skólinn sé lokaður vegna rakaskemmda, mygla hafi greinst í öllum álmum skólans þegar árið 2019 og skýrsla um málið ekki komið fram í dagsljósið fyrr en nú. Ljósmynd/Heimasíða Flataskóla

„Bærinn er bara að sykurhúða þetta, hann sendir út tilkynningu um að það séu rakaskemmdir en almennt líti skólinn vel út, málið er mun alvarlegra, mygla hefur greinst í skólastofum á nær öllum göngum skólans, tæplega 400 börn sitja heima og hluti þeirra sat einnig heima fyrir tæpum tveimur vikum af sömu sökum,“ segir foreldri barna í Flataskóla í Garðabæ í samtali við mbl.is um lokun skólans fram á miðvikudag vegna rakaskemmda. Málið sé ekki nýtt af nálinni.

Skýrsla frá verkfræðistofunni Eflu, sem birt var á heimasíðu Garðabæjar nú í janúar, sýnir svo ekki verður um villst að svo er ekki. Á vormánuðum 2019 var Efla fengin til að gera úttekt á húsnæði skólans í kjölfar ábendinga foreldra og starfsfólks. Niðurstaðan var að rakaskemmdir fundust á um hundrað stöðum í húsinu auk þess sem mygla greindist í einhverjum sýnum.

Af þessari skýrslu fengu hins vegar hvorki skólastjórnendur, starfsfólk né forráðamenn skólabarna að vita á sínum tíma.

„Hvorki þáverandi skólastjóri, sem leitaði til bæjarins vegna málsins, né núverandi skólastjóri, sem bæði virðast hafa lagt sig fram í þágu barnanna, höfðu fengið eintak af skýrslunni,“ segir foreldrið.

Réðu sér lögfræðing

Á upplýsingasíðu bæjarins má sjá að fljótlega upp úr því er Efla skilar af sér skýrslunni skipti Garðabær um verkfræðistofu og leitaði til Mannvits sem tók út hvert kennslurými innan skólans.

„Forráðamönnum er þó ekki tilkynnt um þetta og í fyrra var hluti nemenda ítrekað færður til vegna viðgerða á skólastofum því í lok framkvæmda greindist aftur vísbending um myglu. Á aðalfundi foreldrafélagsins síðastliðið haust var ákveðið að fjórir foreldrar færu á fund með bænum og það ýtir aðeins við þessari úttekt sem búið var að lofa,“ heldur foreldrið áfram.

Eftir að niðurstöður þeirra bárust í desember í fyrra hafi svo verið ákveðið að fara í heildarúttekt á skólanum, í kjölfar þess hafi foreldrum og starfsfólki borist fréttir af skýrslu Eflu frá 2019. Einhverjir foreldrar réðu sér þá lögfræðing til að krefja bæinn um aðgang að skýrslum um ástand skólans á grundvelli upplýsingalaga og í janúar á þessu ári birti bærinn loks skýrsluna frá 2019 á vef sínum. 

Í millitíðinni höfðu kennarar sent bænum ályktun þar sem kemur fram að þolinmæði þeirra sé á þrotum, málið hafi verið tekið fyrir í bæjarráði og fjallað um það í fjölmiðlum. Hefst erindi þeirra með svofelldum orðum:

Við, starfsfólk Flataskóla, krefjumst þess tafarlaust að fá upplýsingar um myglu í húsnæði skólans. Við krefjumst þess að fá að sjá skýrslu sem birt var árið 2019 en hefur ekki verið gerð opinber fram að þessu. Við vitum að þessi skýrsla liggur fyrir og [að] í skýrslunni eru mjög mikilvægar upplýsingar um myglu og mygluummerki víðsvegar um skólann.

Spyr starfsfólkið svo hver ástæðan sé fyrir því að bærinn hafi búið yfir upplýsingunum í nokkur ár án þess að upplýsa nemendur, aðstandendur þeirra og starfsmenn. Er þá tíundað að á fundi með bæjarstjóra í desember hafi góðu upplýsingastreymi verið lofað, loftplötur hafi hrunið niður á gólf í skólanum og vatn flætt inn.

Í niðurlagi bréfsins segir:

Í Flataskóla starfar stór og samstilltur hópur með velferð nemenda að leiðarljósi. Hingað til höfum við treyst bæjaryfirvöldum og teljum við okkur hafa verið samstarfsfús og lausnamiðuð í hvívetna. Nú er þolinmæði okkar á þrotum. Bæjaryfirvöld hafa brugðist skólasamfélagi Flataskóla.

Mikið magn gróa og sveppa í innilofti

Við lestur skýrslunnar frá 2019, sem er ítarleg og telur 50 síður, eru niðurstöður raka- og myglumælinga sundurliðaðar eftir álmum og hæðum og grein gerð fyrir hverju svæði fyrir sig. Segir þar meðal annars um 2. hæð suðurálmu:

Niðurstöður gefa til kynna hækkun á rakasæknum örverum í rykinu borið saman við það sem má reikna með í þurru, hreinu, óskemmdu húsnæði. Þegar tegundasamsetning er skoðuð þá er styrkur tegunda sem eru einkennandi fyrir rakaskemmdir aðeins í hækkuðu magni, þá sérstaklega Aspergillus/Penicillium. Einnig er að finna Aspergillus fumigatus í hækkuðu magni. Tilefni er til þess að kanna betur hvort að rakaskemmdir séu til staðar, staðsetja þær og meta umfang.

Sýnu verst var ástandið í gamalli smíðastofu í kjallara:

Mikið magn gróa og svepphluta greindist í innilofti á gangi fyrir framan eldri smíðastofu sem staðfestir umfang rakaskemmda sem þar hafa fundist. Í öllum sýnum af uppsöfnuðu ryki mátti sjá aðeins aukið magn örvera sem einkenna rakaskemmdir þegar miðað er við þurr og hrein hús samkvæmt viðmiðum OBH verkfræðistofu.

Í kafla um úrbætur, sem lýsir ástandinu í skólanum fyrir tæpum fjórum árum, segir meðal annars:

Fjarlægja þarf allt rakaskemmt byggingarefni innanhúss af rakasvæðum og mikilvægt er að fylgja ströngum verkferlum við hreinsun. Rakasvæði eru tilgreind með litamerkingum á myndum 1-7 í kafla 2.1. Áður en hægt er að ráðast í að fjarlægja rakaskemmt byggingarefni þarf hinsvegar að greina og stöðva lekaorsök á hverjum stað.

Raki gólfdúkurinn enn rakur

„Ef litið er til niðurstöðu skýrslunnar frá 2019 má sjá að þær framkvæmdir sem farið hefur verið í á undanförnum árum eru í engu samræmi við það sem kemur út í þeirri skýrslu,“ segir viðmælandi mbl.is.

„Einnig er að finna Aspergillus fumigatus í hækkuðu magni,“ segir …
„Einnig er að finna Aspergillus fumigatus í hækkuðu magni,“ segir meðal annars í skýrslu Eflu um úttekt sem framkvæmd var í maí 2019. Ljósmynd/Heimasíða Garðabæjar

„Af minnisblaði bæjarins frá því í janúar má sjá að að farið hefur verið í einhverjar umbætur á skólanum, drenkerfi skólans yfirfarið, þak endurnýjað að hluta og þegar hefur einhverjum gluggum verið skipt út. Á sama tíma hefur blautu byggingarefni ekki verið skipt út eins og lagt er til í skýrslu Eflu, raki gólfdúkurinn er enn þá rakur og léttum milliveggjum var ekki skipt út samhliða þakviðgerðum,“ segir foreldrið enn fremur.

Kveður viðmælandinn nægja að fara inn í Flataskóla í rigningu til að átta sig á ástandinu. „Í janúar féllu loftplötur á gólfið í matsal barnanna af því að þar hefur þakið lekið til margra ára og það sama á við um skrifstofu námsráðgjafans. Í mörg ár hefur mátt sjá fötur á göngum skólans þegar rignir.“

Hver eru þá næstu skref í málinu?

„Samkvæmt pósti frá skólastjórnendum er verið að meta hvernig hægt er að halda úti skólastarfi. Líklega duga minni háttar viðgerðir á tveimur nýrri álmunum en það er samt mygla í skólastofum í þeim álmum. Á öðrum stöðum þarf að loka í lengri tíma.“

Skjóti skökku við að tala um rakaskemmdir

Foreldrar standi nú frammi fyrir því að börnin fari ekki í skóla fyrr en um miðja viku sem sé ekki kræsilegt ástand fyrir fólk í fullri vinnu. „Þess vegna finnst okkur skjóta svolítið skökku við að lesa í fréttum að skólanum sé lokað vegna rakaskemmda,“ segir foreldrið, en í bréfi frá skólastjórnendum til foreldra, sem mbl.is hefur fengið að sjá, segir:

Við höfum nú fengið niðurstöður úr flestum sýnum sem tekin voru vegna rakaskemmda i Flataskóla, en þær bárust seinnipartinn í dag fimmtudag. Ákveðið hefur verið að loka nokkrum skólastofum og kennaraaðstöðu vegna rakaskemmda. Niðurstöður DNA ryksýnasýni í skólanum koma almennt vel út. Hægt er að ráðast í minni viðgerðir á nokkrum stöðum mjög fljótlega en aðrar verða umfangsmeiri og munu taka lengri tíma.

Sorglegt að ekki var gengið í málið 2019

„Þetta er auðvitað mjög dapurlegt en engu að síður saga margra skóla því miður,“ segir Heiðveig Hanna Friðriksdóttir, formaður Foreldrafélags Flataskóla og fyrrverandi kennari við skólann, í samtali við mbl.is. „Bærinn upplýsir ekki skólann, hvorki stjórnendur né foreldra, um niðurstöður þessarar skýrslu frá 2019.“

Segir Hanna, eins og hún er kölluð, viðbrögð bæjarins nú þó hafa verið góð, til standi að ráðast í viðgerðir, en að segja að skólinn sé lokaður vegna rakaskemmda dragi að einhverju leyti úr alvarleika stöðunnar. „Rakavandamálin eru eitthvað sem kom í ljós í þessari skýrslu frá 2019 en núna er að finnast þarna mygla – og það var svo sem mygla þá líka,“ segir Hanna.

Horft yfir Garðabæ, Vífilsstaðavegur fyrir miðri mynd, Flataskóli ofarlega til …
Horft yfir Garðabæ, Vífilsstaðavegur fyrir miðri mynd, Flataskóli ofarlega til hægri. mbl.is

„Nú finnst mygla í öllum álmum og fjöldi rýma er lokaður. Það er bara sorglegt að ekki hafi verið gengið í þetta strax 2019 þegar skýrslan var gefin út. Við fórum á fund núverandi bæjarstjóra í haust til að vekja athygli á ástandinu og hann vissi ekkert frekar en við af þessari skýrslu enda nýkominn í embætti,“ segir Hanna sem ber miklar taugar til skólans þrátt fyrir að hafa ekki numið við hann sjálf.

Urgur í foreldrum

„Okkur finnst bara mjög mikilvægt að þetta verði lagað og ég hef trú á því að bærinn geri það núna, nú er búið að setja upp sérstaka upplýsingasíðu um þetta mál og svo verður fundur fyrir foreldrafélagið á mánudaginn [í dag] og opinn fundur fyrir alla foreldra á þriðjudaginn [á morgun] en þarna er auðvitað verið að slökkva elda,“ segir Hanna.

Hvað segja aðrir foreldrar þá og hvernig er andinn í foreldrahópnum?

„Auðvitað er kurr í hópnum, nú er komið í ljós að það eru börn í hópnum sem hafa veikst vegna myglu og fólk gerði sér kannski ekkert grein fyrir í fyrstu að væri vegna myglu. Eitt barn hefur þurft að hætta í skólanum og fólk hefur áhyggjur, það er mjög erfitt að fá marga daga sem er ekki skóli en mér finnst einhvern veginn hafa verið mjög fyrirsjáanlegt að þetta færi svona,“ segir Hanna sem fór gagngert í stjórn foreldrafélagsins til að beita sér í myglumálinu.

Hún segir ekki hlaupið að því að finna bráðabirgðahúsnæði fyrir 400 börn, það skilji hún sem fyrrverandi kennari í skólanum. „Að það hafi ekki verið ráðist í úrbætur þarna 2019 er bara ferlega súrt og það hefur afleiðingar, en við verðum að trúa því að nú verði tekið á þessum málum af festu,“ segir Heiðveig Hanna Friðriksdóttir, formaður Foreldrafélags Flataskóla, að lokum.

Hér má sjá skýrslu Eflu frá 2019

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert