Ríkislögreglustjóri tjáir sig ekki

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkislögreglustjóri mun ekki tjá sig um hryðjuverkamálið svokallaða í kjölfar þess að málinu var vísað frá í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þetta kemur fram í skriflegu svari frá Embætti ríkislögreglustjóra við fyrirspurn mbl.is 

Er á það bent að málið sé á herðum héraðssaksóknara og enn hjá dómstólum og á þeim forsendum tjáir embættið sig ekki.

Mikla athygli vakti þegar ríkislögreglustjóri stóð að baki aðgerðum í Mosfellsbæ þar sem sakborningar voru handteknir vegna gruns um áætlanir um að fremja hryðjuverk.

Haldinn var blaðamannafundur þar sem fram kom að þrívíddarprentuð vopn hafi verið gerð upptæk auk þess sem grunur hafi verið um að til stæði að ráðast á lögreglu eða Alþingi. 

Málið tók þó vendingum vegna fjölskyldutengsla ríkislögreglustjóra við málið. Í framhaldinu tók héraðssaksóknari við málinu. Var hryðjuverkalið ákærunnar vísað frá hjá Héraðsdómi Reykjavíkur í kjölfarið sökum óskýrleika í ákæru.

mbl.is