Telur að verkföll verði skammvinn

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, í Félagsdómi.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, í Félagsdómi. mbl.is/Árni Sæberg

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir dómur héraðsdóms frá því í morgun, þar sem úrskurðað var um innsetningu vegna kjörskrár Eflingar til atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu, það mikilvægasta sem fram kom hjá dómsstólum í dag er varðar kjaradeilu samtakanna við Eflingu. 

Verkföll hefjast á morgun 

Félagsdómur úrskurðaði fyrr í dag að verkfallsboðun Eflingar á sjö hótelum sem hefjast á á morgun, hafi verið lögleg. SA hafði kært boðunina á þeim grundvelli að friðarskylda væri komin á þegar ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu.

Þá standa yfir atkvæðagreiðslur um verkföll á hótelum Berjaya og olíubílstjórum. Atkvæðagreiðslunum lýkur á morgun. Halldór Benjamín segist ganga út frá því að í atkvæðagreiðslu um boðuð verkföll muni forysta Eflingar ná sínu í gegn. 

Enginn sigur í að telja og velja

„Ástæða þess er að þau stunda aðferð sem ég kalla að telja og velja. Þau fara inn á vinnustaðina og kanna hug fólks og þar sem er mikil stemning, eins og þau orða það, fyrir verkfallsaðgerðum, láta þau fara fram atkvæðagreiðslur. Ég get ekki séð að það sé neinn sigur fólginn í því fyrir forystu Eflingar að þeir hópar sem þau vita fyrirfram skoðun þeirra á verkfallsaðgerðum, að þau greiði atkvæði með verkfalli.“

Halldór segir að forysta Eflingar ætti að sjá sóma sinn í því að fresta boðuðum verkföllum fram yfir atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu. „Sér í lagi þar sem ekki ríkir réttaróvissa þar sem héraðsdómur úrskurðaði að þeim beri að afhenda kjörskrá sína svo að atkvæðagreiðsla geti farið fram. Ég býst við að þau munu hafna þeirri beiðni. Efling vill fara í verkfall. Ég geri ráð fyrir að það verkfall verði skammvinnt, það hafi lítil áhrif og að atkvæði verði greidd um miðlunartillöguna á næstu dögum enda munu þar til bærir aðilar í íslensku stjórnkerfi væntanlega einhenda sér í það að sækja atkvæðaskránna með þeim lögum og úrræðum sem fær eru.“

Lögfræðilegar hundakúnstir og loftfimleikar

Þá er stendur eftir þriðja dómsmálið, þar sem Efling kærði fram koma miðlunartillögu til héraðsdóms. Halldór Benjamín segist líta á það má sem lögfræðilegar hundakúnstir og loftfimleika. „Úrskurður héraðsdóms í morgun er alveg kristaltær og tekur á því sama. Ég geri ekki ráð fyrir að þau fái flýtimeðferð auk þess sem að áfrýjun málsins í morgun frestar ekki réttaráhrifum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert