„Þetta er skynsamleg og rétt niðurstaða“

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra Snæs.
Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra Snæs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er skynsamleg og rétt niðurstaða. Við áttum von á þessu,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra Snæs Birgissonar sem er annar sakborninganna í hryðjuverkamálinu svokallaða.

Dómari Héraðsdóms Reykjavíkur vísaði ákæruliðum eitt og tvö frá en þeir vísa að brot­um er snúa að und­ir­bún­ingi hryðju­verka. 

Sak­sókn­ari mun taka sér lög­bund­inn kæru­frest til þess að ákveða hvort úr­sk­urðinum verði áfrýjað til Lands­rétt­ar.

Sveinn Andri segir því að framhaldið ráðist af því hvað ákæruvaldið geri.

Hann segir þó að um mikinn létti sé að ræða fyrir skjólstæðing sinn. 

„Að óbreyttu – ef þetta helst svona – þá eru bara um minniháttar refsingar að ræða.“

Dómari sammála um óskýrleika ákærunnar

Einar Oddur Sigurðsson, verjandi Ísidórs Nathanssonar, tók undir orð Sveins Andra og sagði að um jákvæða niðurstöðu væri að ræða. 

„Niðurstaðan er í samræmi við þær væntingar sem við höfðum,“ segir hann.

Einar Oddur Sigurðsson, verjandi Ísidórs.
Einar Oddur Sigurðsson, verjandi Ísidórs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Er blaðamaður ræddi við Einar, stuttu eftir að uppkvaðningu dómsins lauk, sagði hann að í fljótu bragði virtist dómari vera sammála um óskýrleika ákærunnar og að danskt fordæmi sem var vísað til í málflutningi 26. janúar passi ekki við þetta mál.

„Það er ekki tekið undir þau sjónarmið héraðssaksóknara að fara með þessi mál með sama hætti.“

Einar hafði ekki rætt við skjólstæðing sinn en sagðist gera ráð fyrir að honum yrði mjög létt. 

„Auðvitað þurfum við að sjá núna hvernig málið þróast áfram, hvort að héraðssaksóknari kæri úrskurðinn. Það kemur í ljós innan skamms.“ 

mbl.is