„Þökkum bara fyrir hvern dag sem er skárri“

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, og sýnataka á heilsugæslu.
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, og sýnataka á heilsugæslu. Samsett mynd

Það er enn mikill erill og töluvert mikið um sýkingar,“ segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is.

Guðrún Asp­e­lund sótt­varna­lækn­ir sagði í viðtali í Morgunblaðinu í dag að um þess­ar mund­ir eru helst fjór­ir smit­sjúk­dóm­ar sem hrella lands­menn; kór­ónu­veir­an, in­flú­ensa, RS-veir­an og streptó­kokk­ar.

Óskar segir að álagið á heilsugæslunni sé svipað eins og það hefur verið undanfarna mánuði. 

„Þó að þetta detti niður í einhvern smá tíma þá má alveg búast við að þetta verði svona eitthvað fram í mars allavega, jafnvel lengur. Við þökkum bara fyrir hvern dag sem er skárri.“

Hann segir að vissulega sé breyting á mynstri smitsjúkdóma eftir heimsfaraldurinn. 

„Alveg klárlega. Það er meira um pestir,“ segir Óskar og nefnir að sumir smitsjúkdómar séu langvinnir. Sumir sjúklingar séu því lengi með einkenni. 

Sýkingar langalgengastar hjá börnum

Hann nefnir að heilsugæslan greini ekki sérstaklega hvaða sýkil fólk beri nema í sérstökum tilfellum. En auk fyrrnefndra smitsjúkdóma sé líka alltaf eitthvað um ælupestir. 

Óskar segir að stundum geti fólk greinst með fleiri en eina veiru, en langoftast sé fólk veikt af einum sýkli í einu. Þá geti fólk veikst af tveimur mismunandi sýklum með skömmu millibili. 

„Maður getur verið með inflúensu, bara rétt batnað, farið í vinnuna og fengið streptó­kokk­ana. Það getur alveg gerst.“

Hann nefnir að sýkingar séu alltaf langalgengastar í börnum, sérstaklega þær sem hafa þekkst áratugum saman. Smitsjúkdómarnir finnist þó í fólki á öllum aldri og allir séu útsettir fyrir smiti.

Smitvarnir aðalmálið 

Óskar segir mikilvægt að huga alltaf að smitvörnum. 

„Það er aðalmálið. Það eru þessi snertismit og náin úðasmit ef maður er nálægt fólki í lengri tíma sem smita helst. Þá er auðvitað núna eins og áður, þá á maður að vera heima ef maður er lasin þannig maður sé ekki að smita aðra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert