Um 200 svín líklega drepist

Slökkvilið á vettvangi brunans í morgun.
Slökkvilið á vettvangi brunans í morgun. Ljósmynd/Brunavarnir Austur-Húnvetninga/Ingvar

Líklegt er að um 200 svín hafi drepist í bruna á svínabúi á Skriðulandi í Langadal suðaustur af Blönduósi sem allur tiltækur mannskapur Brunavarna Austur-Húnvetninga berst nú við að sögn Ingvars Sigurðssonar, slökkviliðsstjóra þar.

„Við fengum tilkynningu um eld í útihúsi hérna við Skriðuland í Langadal snemma í morgun og sendum allan okkar mannskap og búnað á svæðið. Slökkvistarf hefur gengið ágætlega og við höfum náð að halda eldinum í einum þriðja af húsinu,“ segir Ingvar við mbl.is.

Óhægt um vik við vatnsöflun

Telur hann allt að 200 svín hafa drepist í brunanum en húsið er hólfað niður. „En þau eru lifandi í tveimur þriðju af húsinu, eldurinn stoppar við eldvarnavegg og við erum að rjúfa þakið á húsinu núna, eins og oft í dreifbýli gengur vatnsöflun erfiðlega og við erum ekki alltaf með búnað sem hentar eða er nógu góður,“ segir slökkviliðsstjórinn en mannskapurinn hefur að hans sögn ekki komist inn í húsið enn þá.

Húsið er hólfað niður en Ingvar telur að um 200 …
Húsið er hólfað niður en Ingvar telur að um 200 svín hafi drepist í þeim hluta sem eldurinn kviknaði í. Ljósmynd/Brunavarnir Austur-Húnvetninga/Ingvar

Hann telur eldinn hafa komið upp í þaki, líklega út frá einhverjum rafknúnum búnaði. „Þetta hefur gengið vel þrátt fyrir að það sé hörmung að þarna hafi mörg dýr farið,“ segir Ingvar Sigurðsson slökkviliðisstjóri að lokum.

mbl.is